138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

ólöglegt niðurhal hugverka.

162. mál
[14:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svo að ég skýri aðeins betur svör mín í þeim efnum þá var ég að reyna að benda á að ýmsar upplýsingar eru til en þær eru misaðgengilegar og miserfitt er að greina muninn á löglegu og ólöglegu niðurhali í því efni sem er aðgengilegt hjá hinu opinbera. Þær upplýsingar sem eru ítarlegastar liggja hjá netþjónustuaðilum og eru lögvarðar, þær má ekki nálgast út frá ákvæðum um friðhelgi einkalífs og annað. Við höfum þegar hafið endurskoðun höfundalaga og við viljum kanna möguleikann á því að fá netþjónustuaðilana til samstarfs við okkur og við útgefendur og fulltrúa rétthafa og ræða um það hvort við getum fengið aðgang að þeim upplýsingum til að kortleggja þetta umfang. Það verður þá liður í því þegar við ljúkum við endurskoðun höfundalaga til að við höfum eitthvað að byggja á.

Svarið er í raun og veru játandi og játandi að því leyti líka að upplýsingarnar liggja fyrir, það skiptir máli að fá aðgang að þeim og að við byggjum á þeim þegar við förum út í endurskoðun höfundalaga.