138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úttekt á aflareglu.

356. mál
[15:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa snöfurmannlegu ræðu og svör hæstv. ráðherra. Þegar hæstv. ráðherra tekur þá ákvörðun að skrifa bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins gerir hann það eins og hann segir af þeim ástæðum að hann telur staðfestingu utanaðkomandi aðila vera mikilvæga. Og af hverju telur hæstv. ráðherra að staðfesting utanaðkomandi aðila sé mikilvæg? Það er vegna þess að hann vill með þeim hætti fá álit fleiri aðila en Hafrannsóknastofnunar Íslands á því að sú stefna sem hann hefur þegar markað sé rétt. Ég lít þannig á að með bréfi hæstv. ráðherra til Alþjóðahafrannsóknaráðsins sé hann að binda hendur sínar til næstu fimm ára um nýtingarstefnu í þorski. Mér finnst augljóst að þetta hljóti að vera það sem við eigum að lesa út úr þessari ákvörðun ráðherrans, sem er þó ekki ákvörðun ráðherrans, þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þetta er auðvitað ákvörðun sem hefur gífurlega mikið vægi og er komin með tvöfalt vægi vegna þess að núna er búið að leita álits Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Ég sé því ekki hvernig hæstv. ráðherra getur horfið frá þessari 20% stefnu sinni eftir að hafa skrifað þetta bréf. Það að taka ákvörðun um að fylgja 20% nýtingarstefnu eða einhverri annarri nýtingarstefnu og gera það á sínum eigin forsendum gerir það að verkum að menn geta horfið frá því ef þeir telja aðrar ástæður liggja til þess að breyta þeirri ákvörðun, en með því að fá þetta utanaðkomandi álit hlýtur hæstv. ráðherra að vera búinn að binda hendur sínar og íslenskra stjórnvalda til næstu fimm ára. Varla var það ætlunin að kalla eftir áliti ráðsins ef ætlunin var síðan að hverfa frá þeirri ákvörðun. Ég vildi biðja hæstv. ráðherra að bregðast við þessu sjónarmiði mínu vegna þess að ég tel mig hafa lesið þetta út úr svari hæstv. ráðherra.