151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[15:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er takmarkaður tími sem þingið hefur til meðferðar á málum, hann takmarkast t.d. einmitt af þessum ræðustól, hann takmarkast af þeim tíma sem nefndir hafa til funda og endurtekning á þingmálum tekur líka af þeim tíma. Það minnkar afköst þingsins og nóg er af málum til að afgreiða samt. Þetta hefur verð gegnumgangandi vandamál undanfarin ár og sérstaklega á þessu kjörtímabili þar sem við upplifum við upphaf þessa kjörtímabils að það gleymist að gera ráð fyrir endurgreiðslu vegna efniskostnaður hjá framhaldsskólum vegna verknáms. Við Píratar vorum með tillögu um að bæta þar við fjárheimildum en það mátti ekki samþykkja hana, það varð að draga hana til baka, fella hana og koma með aðra sem var ekki nákvæmlega eins. Sama hvað ég reyndi að spyrja, hversu mikill kostnaðurinn var í raun og veru, var svarið alltaf: Við vitum það ekki alveg. Það var líklega nær því sem við Píratar lögðum til en við fáum aldrei nákvæm svör. Þetta er einkenni þessara starfshátta þar sem sífellt (Forseti hringir.) er verið að reyna að endurtaka eitthvað bara með réttum merkimiða. Ef merkimiðinn er rangur þá gengur ekki neitt og það er slæmt.