131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:30]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur og að líkum er umræðan tvíþætt sem hér fer fram. Annars vegar um þetta afmarkaða frumvarp sem lýtur að stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur og hins vegar um orkumálin almennt og þá lagaumgjörð og stefnumörkun sem verið er að skapa þeim.

Það er held ég rétt og skylt að hér sé bent á að þetta frumvarp var lagt fram í haust og nokkru áður en fóru að dynja á þjóðinni yfirlýsingar um að hraða einkavæðingu orkukerfisins sem við höfum mátt búa við í 2–3 mánuði. Ég hygg að Húsvíkingar sem aðrir landsmenn muni velta fyrir sér í sjálfu sér hvort þeir séu þarna á öruggri vegferð að stofna hlutafélag um orkuveitu sína sem líka fer með vatnsveitumál og önnur þau verkefni sem veita hefur í slíku góðu samfélagi.

Á það hefur verið minnst fyrr í dag að þær miklu hræringar sem núna eiga sér stað á raforkumarkaðnum eigi rætur að rekja til þess að samþykkt voru raforkulög fyrir rúmu ári, raforkulög sem voru talin byggja á einhverri Evróputilskipun um að raforkuframleiðsla á Íslandi og raforkumarkaðurinn gæti lotið einhverju lögmáli markaðarins með hliðstæðum hætti og gæti gerst erlendis þar sem lönd liggja þétt saman og auðlindir með þeim hætti að hægt er að nýta þær kannski meira og minna sameiginlega. Ísland er eyland og á þess vegna ekkert skylt við þær aðstæður sem verið er að tala um á mörkuðum erlendis.

Ég vil því aðeins víkja að þessum hlutum almennt. Ég vil fyrst víkja að þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og kom m.a. fram í ræðum hv. þm. Helga Hjörvars og fleiri þingmanna sem hafa talað að hagsmunir Reykjavíkur og landsbyggðar séu ólíkir hvað orkumál varðar. Ég vil fullkomlega mótmæla þeirri nálgun málsins. Ég vil líta á okkur sem eina þjóð. Ég vil líta á Reykvíkinga sem Íslendinga. Ég vil líta á alla Íslendinga sem eina þjóð óháð því hvar þeir búa og hagsmunir og ráðstöfun á auðlindum á ekki að fara eftir einhverjum hreppum hvað þetta varðar.

Menn geta velt því fyrir sér með Landsvirkjun, m.a. hvernig hún varð til. Ég ætla ekki að rekja þá löngu sögu en hún var stofnuð til þess að skaffa rafmagn til stóriðju á suðvesturhorninu á sínum tíma. Henni voru afhentar flestar virkjanir landsins til að gefa henni eigið fé og síðan var henni falið það hlutverk að skaffa rafmagn til stóriðju á suðvesturhorninu. Henni var líka falið, þar sem hún átti megnið af virkjunum landsins, að útvega Rarik rafmagn til að selja í smásölu út um land til dreifingar. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að mörgum hefur fundist Landsvirkjun vera dýr á því rafmagni sem hún hefur verið að selja til Rariks, til dreifingar til hins almenna notanda. En hvers vegna þurfti hún þá að selja þetta svona dýrt til almennra notenda? Jú, hún var annars vegar að greiða niður orkuverðið til stóriðjunnar og hins vegar að skapa sér þann höfuðstól sem hún nú á. Hverjir greiddu þetta? Raforkunotendur um allt land á veitusvæði Rariks hafa greitt þann eignarhlut sem hefur myndast í Landsvirkjun. Menn geta deilt um hvort þetta hafi verið rétt skipan á sínum tíma. Ég held að hún hafi verið röng. Ef ráðist var í svona stórvirk mál að skapa orku fyrir eitthvert stórfyrirtæki sem tekur meginhluta af þeirri raforkuframleiðslu sem í gangi er þá ætti að stofna um það sérstakt fyrirtæki en ekki að láta almenna neytendur greiða það niður. Þess vegna þegar verið er að tala um hver eigi Landsvirkjun, þá finnst mér að við þurfum að ganga þar gætilega um dyr og vera ekki að draga okkur að ástæðulausu í hreppadilka hvað þetta varðar. Þjóðin öll hefur greitt þennan höfuðstól Landsvirkjunar og þess vegna varðar framtíðarráðstöfun hennar þjóðina alla en ekki einstök sveitarfélög. Þetta vildi ég draga rækilega fram af minni hálfu. Ég held að Reykvíkingum, sem ég hef hitt, sé enginn greiði gerður með því og þeir eru á móti því að þeim sé stillt sem hagsmunalegum andstæðingum eða eigi sér sameiginlega hagsmuni með íbúum annars staðar á landinu. Við, þó að við eigum lögheimili úti á landi, erum stolt af höfuðborg okkar. Við gerum okkur grein fyrir að hingað hefur safnast með einum eða öðrum hætti auður og fjárfestingar. Allar byggingar ríkisins eru nánast hér o.s.frv. þannig að við gerum okkur grein fyrir því og erum stolt af og ég tel að við eigum að gæta þess að hugsa þessa hagsmuni alla sem heild fyrir þjóðina eins og rétt og skylt er og ég held að allir vilji.

Víkjum aðeins að þeim málum með framtíðarsýnina. Við höfum öll heyrt svo rækilega bæði á þingi og í fjölmiðlum undanfarið hver stefna ríkisstjórnarinnar er í orkumálum. Hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því yfir fyrir áramót á þingi að hún stefndi að því að stofna eitt fyrirtæki úr Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða og Rarik. Síðan mundi það fyrirtæki fara á markað eins og hæstv. ráðherra orðaði það þá að mig minnir. Þetta var einmitt í umræðu um framkvæmd nýsettra raforkulaga þar sem ráðherra viðurkenndi að margt hefði farið á annan veg en búist hafði verið við. Rafmagn hækkaði upp úr öllu valdi og mörg framkvæmdaatriði hefðu komið þeim mjög á óvart. Ég hef heyrt fleiri stjórnarþingmenn segja hér í þingsal að raforkulögin eins og þau birtast í framkvæmd koma þeim mjög á óvart, þetta sé allt öðruvísi en þeim hafi verið sagt, allt öðruvísi en hæstv. iðnaðarráðherra hafi sagt þeim að þetta mundi verða, allt öðruvísi en embættismennirnir höfðu sagt að þetta mundi verða. Og nú eru embættismenn og ráðherrar á handahlaupum að reyna að draga í land og bjarga í horn verstu annmörkum síðustu raforkulaga. Eins og einn þingmaður orðaði það á nefndarfundi, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sjáum við ekki fyrir endann á því hvernig á að draga það allt í land. Ég leyfi mér að vitna til þessa orðalags vegna þess að hann hefur líka sagt þessi sömu orð á þingi. Þetta er sú staða. Síðan koma hæstv. iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra og segja að framtíðin sé sú að sameina þessi fyrirtæki í eitt og setja þau síðan á markað, selja þau á næstu 2–4 árum.

Það er í þessu ljósi sem orkuveiturnar um landið hafa verið að senda frá sér ályktanir. Norðurorka sendi frá sér ályktun fyrir jól að mig minnir eða fyrir skömmu þess efnis að óska eftir viðræðum við ríkisvaldið um að fá að leysa til sín sinn hluta í Rarik og verkefni Rariks á sínu svæði til að byggja sig upp.

Skagafjarðarveitur hafa líka sent sams konar erindi og óskað eftir viðræðum um að fá að leysa til sín rafveiturnar, eignir Rariks á sínu svæði. Iðnaðarráðherrann gefur mönnum þá gagnsæju yfirlýsingu að hún sjái ekki að þessar litlu orkuveitur eigi sér neina framtíð. Hún sjái þá framtíð að þær sameinist í tvö meginfyrirtæki með Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða sem hrygglengju í öðru og þá væntanlega yrðu Norðurorka og aðrar litlar veitur bara innbyrtar því henni fannst þær svo litlar, ráðherranum, að ekki tæki því að nefna þær í sömu andrá sem verið væri að nefna þessa sameiningu. Hin sýnin er væntanlega að Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja sameinist í annað fyrirtæki þannig að tvö orkufyrirtæki verði í landinu, annað sjálfsagt í eigu framsóknarmanna og hitt í eigu sjálfstæðismanna svo öllum skilyrðum sé nú fullnægt. En það er ekki víst að ráðherranum verði kápan úr því klæðinu því eins og hæstv. iðnaðarráðherra sagði hér yrði samt að bjóða kaupin á þessum orkuveitum út á Evrópska efnahagssvæðinu og þá er ekki víst að framsóknarfyrirtækin eða sjálfstæðisfyrirtækin ráði við að kaupa þau fyrirtæki. Þau geta að öllum líkindum þess vegna farið í hendur aðila langt úti í heimi og þar af leiðandi fari ráðstöfun á orkuverunum á allt aðra lund en ráðherrann mundi helst fýsa að færi þegar hún væri búin að opna leikinn.

Ég held að það sé í þessu ljósi sem við eigum að horfa á öll þau skref sem verið er að stíga varðandi að létta þessa einkavæðingu orkugeirans fyrir ríkisstjórninni. Ég held að reyna eigi að skoða þetta í því ljósi. Ég velti því fyrir mér hvort 2. þm. Norðaust. sé svo reiðubúinn að feta í slóð 1. þingmanns kjördæmisins, hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, að leggja Norðurorku inn í þetta púkk sem hún hefur mælt fyrir á þingi. Og að Orkuveita Húsavíkur sem við erum hér að fjalla um mundi bara vera tekin án þess að ræða það sérstaklega. Eða hefur hv. 2. þm. Norðaust. ekki heyrt stefnuyfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra sem er 1. þingmaður kjördæmisins? Sá vilji hlýtur einmitt líka að snúa að Orkuveitu Húsavíkur og í samræmi við það er þetta bara aukaleikur að vera að hlutafélagavæða. Styður hv. 2. þm. Norðaust. þessa stefnu hæstv. iðnaðarráðherra, 1. þm. Norðaust., að Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur fari inn í þetta stóra púkk sem enginn veit hvar endar? Hefur ekki hv. 2. þm. Norðaust. áhyggjur nú þegar af framkvæmd raforkulaganna fyrir bændur, fyrir öll hin minni fyrirtæki? Það er ekki enn séð fyrir endann á því.

Ég hef einmitt litið svo á að hv. 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, beri hag byggðarinnar fyrir brjósti og mundi vilja standa gegn þessu ef hann mætti. Mér kom þess vegna á óvart hversu létt hann steig þennan dans við hæstv. iðnaðarráðherra og virtist vera orðinn flæktur í einkavæðingarpilsaslætti ráðherrans.

Það er nú svo að eftir að búið er að opna dyrnar fyrir einkavæðingunni, fyrir hlutafélagavæðingunni, er ekki svo gott að standa gegn því. Fyrir vestan var sagt þegar Guggan var seld að hún yrði áfram gul en það stóð í nokkra daga. Og þegar hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, talaði einmitt um símann, Póst og síma, að hann yrði ekki til sölu, þá hef ég hér viðtal í BSRB-tíðindum frá september 1995, 4. tölublaði 8. árgangi þar sem einmitt er verið að vitna í hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, sem var að hlutafélagavæða Póst og síma. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til þess að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur.“

Síðan kemur orðrétt í þetta viðtal, með leyfi forseta:

„Ég legg áherslu á,“ — segir hæstv. samgönguráðherra — „að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Þetta vilja menn nú meina að gildi bara á þeim tíma þegar það er sagt, en við vitum hvað nú er. Nú stendur Síminn nákvæmlega frammi fyrir því sem við erum að tala um að geti blasað við fyrir orkuveitunum. Nú stöndum við nákvæmlega frammi fyrir því að verið er að takast á um sölu Símans.

Það sérkennilega við þetta er að Framsóknarflokkurinn, félagshyggjuflokkurinn gengur þarna í fylkingarbrjósti líka. Hann gengur fram í fylkingarbrjósti í að selja Símann. Ætli það sé með miklum stuðningi flokksmanna? Nei, í skoðanakönnun sem gerð var um afstöðu kjósenda Framsóknarflokksins til þess arna var mikill meiri hluti, milli 70 og 80% á landsbyggðinni og yfir 60% af þeim sem studdu Framsóknarflokkinn voru andvígir því að Síminn væri seldur. (Gripið fram í: Hvenær?) Fyrir tæpum tveimur árum síðan. Og ef eitthvað hefur gerst síðan eru menn enn hræddari nú við einkavæðinguna. En Framsókn keyrir á þessa einkavæðingu á Símanum. (HBl: Þingmaðurinn er þó ekki hræddur hér í Reykjavík eins og …)

Hv. 2. þm. Norðaust. er vaskur maður og ég held að við sem eigum uppruna með þeim hætti óttumst ekki neitt heldur tökum bara á. Og þó að menn í Reykjavík, ég veit að hann á í miklum vandræðum með alla sína liðsmenn í Sjálfstæðisflokknum sem eru hlaupandi út og suður á þverólíkri stefnu við þingmanninn, en það er nú ekki svo í þessu máli.

Ég vil bara ítreka hér að við erum að fara út í vegferð sem gengur þvert gegn vilja kjósenda, t.d. Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Í þessu máli?) Já, ég hef ekki trú á því að þetta njóti stuðnings þar og bendi á að afstaða kjósenda Framsóknarflokksins til sölu Símans var þannig að mikill meiri hluti var andvígur henni og ég skora á hinn gamla félagshyggjuarm Framsóknarflokksins, sé hann enn til, að berjast gegn því að Framsókn einkavæði Símann og selji og berjist jafnframt gegn því að orkuverin, raforkukerfið verði einkavætt og selt eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað.