136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er á ferð nokkuð skondið mál í ljósi þess að fráfarandi ríkisstjórn braut niður traust og tiltrú þjóðarinnar einmitt með því að halda grundvallarupplýsingum leyndum, þar á meðal upplýsingum um samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þarf ég að minna hv. þingmann og þingheim allan á að þingmenn kölluðu mjög ákaft eftir því vikum saman, og þar á meðal sú sem hér stendur, að fá á borð þingmanna prógramm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, og Davíð Oddsson, margnefndur seðlabankastjóri, höfðu skrifað undir. Það var ekki fyrr en DV birti það skjal að því var dreift á borð þingmanna. Í ljósi þessa er orðalagið sem hv. þm. Birgir Ármannsson notar um þetta — hann sagði að það væri óskiljanlegt að það væri trúnaður á skjali frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum — nokkuð skondið. (BÁ: Málið er í höndum þingsins.) Þetta er svipað, þetta snýst um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En nú er það ekki DV heldur hv. þm. Birgir Ármannsson sem hefur upplýsingar um trúnaðarskjöl frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Á fundi viðskiptanefndar í morgun var upplýst að hæstv. forsætisráðherra hefur óskað eftir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefi formlega umsögn um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands. Slík umsögn mun vera væntanleg á allra næstu dögum og hún mun að sjálfsögðu lögð fyrir viðskiptanefnd þingsins sem mun taka sjálfstæða afstöðu til þeirra athugasemda því að það er rétt, málið er ekki lengur í höndum framkvæmdarvaldsins, málið er í höndum þingsins og þangað munu þessar athugasemdir berast fyrir tilverknað hæstv. forsætisráðherra.