131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:07]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki boðleg umræða, að menn séu að sigla undir fölsku flaggi. Hvað er að því þó Reykvíkingar sem vilja selja hlut sinn í Landsvirkjun hafi skoðun á því hvað ríkið eigi að gera við þann hlut. Höfðum við ekki öll rétt til þess að hafa skoðun á því?

Mér finnst eins og hv. þingmaður sé kominn út í einhvern móa með þessa umræðu. Mér finnst að við höfum öll fullan rétt á að hafa skoðun á því hvernig ríkið eigi að fara með þetta. Ef hv. þingmaður lítur þannig á að Reykvíkingar séu að samþykkja einhvers konar glötunarleið með því að samþykkja að ríkið yfirtaki þessa eign, þá kemur það mér nú dálítið á óvart að menn skuli þannig hugsa þá hluti.

Skoðun mín er sú að ríkisvaldið eigi fyrst og fremst að hugsa um það verkefni sem það hefur farið af stað í, þ.e. að sjá til þess að til verði einhvers konar samkeppni á raforkumarkaðnum. Það sjá allir menn að það getur ekki orðið með því að steypa saman öllum orkufyrirtækjum ríkisins í eitt og ætla svo öðrum að keppa við það sem er kannski 10% af markaðnum. Hvaða skilaboð eru það? Það eru skilaboð til þeirra sem eftir eru að þeir verði að sameinast og þá verða orðin tvö orkufyrirtæki í landinu, annað með 90% og hitt með 10%. Þetta er nú umræðan sem er í gangi.

Mér finnst hv. þingmaður gera lítið úr skoðunum manna ef þeir mega ekki hafa skoðun á þessu í hv. Alþingi. Mér finnst menn hafa fulla ástæðu til að lýsa því yfir að þeir beri enga ábyrgð á slíkum tiltektum ef það er niðurstaðan að ríkisstjórnin ætli sér að fara þessa leið. Ég ætla bara að vona að hv. þingmaður sé ekki búinn að samþykkja þessa vitleysu, en hann getur auðvitað sagt okkur það hér.