150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og tek undir það sem hér hefur verið sagt og vil færa nefndinni og formanninum þakkir fyrir vel unnin störf á krefjandi tímum. Ég vona svo sannarlega að mönnum hafi ekki yfirsést neitt í þessari vinnu. Þess vegna langar mig að koma aðeins inn á framkvæmdina á þessum aðgerðum sem skipta náttúrlega verulegu máli. Ég held að segja megi að fjölmörg fyrirtæki muni nýta sér þetta úrræði og ég spyr: Hvernig er með starfsemi Vinnumálastofnunar, geta starfsmenn annað þessu öllu saman? Er búið að fara yfir framkvæmdaþáttinn á þessu úrræði? Mun þetta ganga snurðulaust fyrir sig?

Við þekkjum að það er oft þannig í kerfinu, t.d. í samskiptum við Tryggingastofnun, að hlutirnir taka stundum óralangan tíma og þarf að vinna bragarbót á því. Það er mjög brýnt og ég vildi fá aðeins svör frá hv. þingmanni hvað þetta varðar.

Síðan vil ég árétta það sem kom fram áðan. Í dag eru á ellefta þúsund einstaklingar á atvinnuleysisskrá, þeim hefur fjölgað verulega frá því í janúar þegar þeir voru um 7.000 og kemur til með að fjölga áfram. En eins og var nefnt áðan eru líka einstaklingar að detta út af atvinnuleysisskrá. Er hv. þingmaður tilbúin að beita sér fyrir því varðandi þá einstaklinga sem koma til með að detta út af atvinnuleysisskrá og sjá fram á mjög erfiða tíma (Forseti hringir.) að þetta tímabil verði framlengt eins og var gert í efnahagshruninu?