150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:54]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vil kannski byrja á að benda á er að það voru margir hópar sem komu hér inn í, misstórir og allt það, og nefndin kom inn á mörg atriði. Kostnaðarmat frumvarpsins þegar það kom til þingsins, hvort sem það var alveg 100% rétt eða ekki, var 700–1.500 milljónir. Nú er kostnaðarmatið komið upp undir 20 milljarða þannig að við skulum hafa það í samhengi hvaða breytingar við erum búin að gera og hvernig við erum þó búin að bregðast við í málinu.

Varðandi þessa hópa þá var eiginlega bara einn hópur sem kom og talaði skýrt um að þetta gæti haft áhrif á það hvort þeir myndu samþykkja að fara þessa leið eða ekki. Aftur á móti bentu BHM og SA og aðrir á að með þessu þaki hefði frumvarpið aukin áhrif á vissa hópa. Þessir aðilar höfðu ekki áhyggjur af því að það yrði til þess að þeir færu ekki inn í leiðina til að aðstoða sitt fyrirtæki og taka því en þakið myndi hafa þessi áhrif, þau sögðu að það myndi ekki grípa þessa hópa alveg.

Töluvert mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafa sagt að fólkið sem er komið á umrædd laun sé oftast millistjórnendur og aðrir. Það er oftast fólkið sem fyrirtækin þurfa á að halda næstu daga hvort sem er og þau munu ekki segja því upp. Þetta er fólkið sem mun sjá um rekstur fyrirtækisins þannig að hjartslátturinn gangi þangað til að hægt er að kalla fleiri inn í fyrirtækið aftur, sjá um að halda utan um fyrirtækin á meðan hremmingarnar ganga yfir. Það var því ekki mikið kallað eftir þessu frá ferðaþjónustunni.