151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

kostnaður við liðskiptaaðgerðir.

[13:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að heilbrigðisráðherra fái að gera grein fyrir máli sínu og ætla ekki að gefa mér nokkuð um það hverju ráðherrann myndi svara. Ég get bara sagt fyrir mitt leyti að sjálfstætt starfandi læknar á Íslandi gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki til að styðja við þau markmið sem við höfum sett okkur á heilbrigðissviðinu. Það er augljóst í mínum huga að það eiga ekki allar aðgerðir heima inni á stóru, þungu sjúkrahúsunum, sem eiga fyrst og fremst að sinna þyngri verkefnum sem við þurfum að sameinast um og safna öllum kröftum á einn stað til að geta sinnt. Við þurfum að tryggja sveigjanleika og færni kerfisins mun ráðast af því hvernig við fullnýtum möguleikana í samspili einkarekstrar og opinbers rekstrar, sem þó er fjármagnaður úr opinberum sjóðum. Ég tel að þetta sé verkefni sem verði að komast í betra lag.