151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

vöxtur skuldasöfnunar.

[13:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að niðurskurður og skattahækkanir hefjist 2023 þegar spáð er 6–7% atvinnuleysi. Ábyrga leiðin er að beita ekki of hörðum aðgerðum of snemma heldur veita svigrúm og skapa frið um hvernig skipta eigi tekjum og afla þeirra, dreifa byrðunum sem koma mjög ójafnt niður og allir sjá hverjir bera, þótt stjórnarflokkarnir vilji loka augunum fyrir því.

Fjármálaráð bendir á að fyrir Covid hafi fjármálaáætlanir sýnt svigrúm til nýrra verkefna upp á 2% af landsframleiðslu. Nú boðar ríkisstjórnin aðgerðir frá árinu 2023 sem ná yfir allt þetta svigrúm og þegar fjármálareglur koma líka til framkvæmda kalla þær á enn frekari niðurskurð á ríkisútgjöldum. Mikilvægir innviðir munu líða fyrir slíka hagstjórn í langan tíma með tilheyrandi kostnaði. (Forseti hringir.) Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að innviðaskuldir hlaðist upp (Forseti hringir.) ef þessi stefna ríkisstjórnarinnar raungerist.