151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

fé til að útrýma sárafátækt.

[13:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvar á að fá peningana til að útrýma sárafátækt hjá þeim fáu sem lifa við hana? Að þessu spurði hæstv. fjármálaráðherra mig þegar ég spurði hann hvers vegna hann hjálpaði ekki þeim fáu sem hann telur að lifi við sárafátækt á Íslandi. Já, hvar eigum við að fá peningana til þess? Yfir 2 milljarðar hafa verið greiddir í viðspyrnustyrki. Þá hafa verið greiddir um 9 milljarðar kr. í tekjufallsstyrki og 2,3 milljarðar í lokunarstyrki. Síðustu mánuði hafa 80 milljarðar verið greiddir í fjölbreyttan stuðning og úrræði ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátaldri heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar. 7.000 störf, 472.000 kr. á mánuði plús lífeyrissjóður og síðast en ekki síst fimm daga sóttkví á fjögurra stjörnu lúxushóteli fyrir ferðamenn með fæði. Þegar þessi útgjöld voru ákveðin, kom þá hæstv. fjármálaráðherra upp í ræðupúlt og spurði: Hvar í ósköpunum eigum við að fá peninga til þess að gera þetta? Ég minnist þess ekki.

Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki hægt að ná í þessa peninga á nákvæmlega sama stað og hann tók hina? Eða er ekki hægt að redda þeim örfáu sem hann telur að lifi í sárafátækt á Íslandi? Gera það a.m.k. í Covid-faraldri, a.m.k. fram yfir kosningar eins og þetta átak um 7.000 störf á að gilda og þá verður fólkið sennilega sett út á guð og gaddinn. En það hlýtur að vera hægt að setja líka inn í þetta þessa örfáu sem lifa við sárafátækt á Íslandi.