151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[14:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan. Allir fréttatímar, fréttir á öllum miðlum, síðustu daga hafa snúist um innihald þessarar skýrslu. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er auðvitað ekki til fyrirmyndar að henni sé lekið. En það væri mjög sérkennileg staða sem við þingmenn værum í ef við gætum ekki tjáð okkur um það efni sem birtist í fjölmiðlum hverju sinni. Mér finnst eiginlega undarlegt að hæstv. ráðherra skuli hafna því að mæta í viðtal og ræða alla vega það efni sem hefur verið lekið. Síðan er það sjálfstætt verkefni að koma í veg fyrir að skýrslum sé lekið yfirleitt og þar held ég að enginn sé hafinn yfir grun.