151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum.

555. mál
[18:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að hafa framsögu og frumkvæði að því að flytja þetta mál, sem er gott verkefni, þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni er unnið að áætlun eða uppfærslu á áætlun í þessum efnum á vegum ráðherra heilbrigðismála. Við þekkjum flest til þessa hugtaks, lýðheilsu, en kannski er það ekki mjög tamt á tungu og við vitum ekki alveg hvað það innifelur; lýðheilsa, forvarnir og heilsueflandi verkefni. Þetta eru ljúf hugtök og hitta okkur vel fyrir og eru vel til þess fallin að slá um sig með. En hvað fela þau í sér? Þetta eru mikilvæg hugtök og verkefni sem eru langtímaverkefni. Í lýðheilsuverkefnum er ávinningurinn nefnilega ekki alltaf augljós og sýnilegur innan mjög skamms tíma og það er kannski þess vegna sem okkur gengur heldur hægt að gera þetta vel.

Fram kemur í þessari tillögu að efla beri starf á sviði forvarna og heilsueflingar í skólakerfinu og á vinnustöðum. Það er þetta atriði sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, hvernig hann sjái þetta fyrir sér. Þessi hugmyndafræði þarf að hríslast um allt samfélagið, skólakerfið og vinnustaðina. Þurfum við hugsanlega að breyta vinnutilhögun og vinnumóral og jafnvel breyta kjarasamningum til þess að koma til móts við þessi viðhorf?