135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

einkavæðing orkufyrirtækja.

[10:39]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þessa máls minna á að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi á sínum tíma tekið ákvörðun um söluferli sem var væntanlega gert með umboði Framsóknarflokksins og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á sínum tíma var það svo að ríkið seldi ekki einkaaðila, heldur keyptu þrjú sveitarfélög, Grindavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær, hlut ríkisins. Það var ekki ríkið sem færði í raun og veru hlutina á markað, heldur voru það sveitarfélög suður með sjó sem tóku ákvörðun um að selja síðan í framhaldinu Geysi Green og önnur sveitarfélög tóku ákvörðun um að selja Orkuveitunni.

Í framhaldi af því náðist hluthafasamkomulag í félaginu en ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir að þrátt fyrir það söluferli sem ríkisstjórnin tók ákvörðun um á sínum tíma var það þannig að menn nýttu forkaupsrétt sinn. Hann er enn til staðar inni í þessu félagi, forkaupsrétturinn, og hvert og eitt sveitarfélag getur nýtt hann hverju sinni. Ég hef sagt í umræðu um þetta að auðvitað er það ákvörðun til að mynda Vogamanna, Grindavíkur eða hverra sem er að taka upp hvort menn skoði kauptilboð eða sölutilboð þegar þau liggja fyrir.

Nú deila menn um hvort sá samruni sem hefur verið kynntur gangi eftir út af því að forkaupsrétturinn er til staðar. Þetta þarf að liggja skýrt fyrir. Hluthafar, hvert og eitt sveitarfélag, sveitarfélögin eða þá Geysir Green, þurfa að taka ákvörðun á faglegum grunni. Það sem við höfum bent á í þessari umræðu er einfaldlega að auðlindirnar hverju sinni eiga að vera í eigu almennings og mér heyrist ekki annað en að það sé góður hljómgrunnur um það á þingi að svo sé, jafnframt að dreifikerfin séu í meirihlutaeigu almennings.

Nú er það alveg ljóst að arðsemi af rekstri dreifikerfanna er mjög lítill því að það er bundið í raun og veru hvernig framleiðnin af því verki er. Ég vil hins vegar benda ágætum þingmönnum á það að framtíð Hitaveitu Suðurnesja liggur í landsvæði sem Grindavík, Hafnarfjörður og Vogamenn eiga og þar er verið að sækjast eftir rannsóknum á þessu stigi.