149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Enn ítreka ég það að þær tölur sem ég hef farið með um heimilisofbeldi eru frá lögreglunni komnar. Víst er það svo að heimilisofbeldi er meira tilkynnt nú en áður var, sem betur fer, en hér áður þá hét þetta kannski bara eitthvað annað í dagbókum lögreglu. Það vill svo til að ég þekki töluvert til í lögreglunni, hef talað um þetta við lögreglumenn, og þá hét þetta eitthvað annað en heimilisofbeldi, þá hét þetta órói í heimahúsi eða eitthvað annað. Það vantar ekkert upp á það að þessar tölur séu réttar.

Skotgrafir eru svo annað mál. Það kann vel að vera að einhverjum finnist það skotgrafir, en það sem ég reyndi að leiða í ljós í fyrstu ræðu minni, og mun koma inn á fleiri atriði í þeim næstu sem ég held, eru lýðheilsuáhrifin. Það eru fyrst og fremst þau sem ég er búinn að vera að tala um. Það eru þessi auka 200 krabbameinstilfelli sem við þurfum ekki á að halda, sem við munum fá. Það er læknisfræðilega sannað. Aukin áfengisneysla veldur u.þ.b. 20 tegundum af krabbameini, sem byrjar í munnholi og endar í endaþarmi og kemur við á 18 stöðum á leiðinni, brjóstum, ristli, maga, brisi, hvar sem er. Þetta vitum við. Þetta er í sjálfu sér ekki eitthvað sem við þurfum að rökræða. Þetta er ekki að sitja í skotgröf. Þetta eru staðreyndir. Þetta eru læknisfræðilegar staðreyndir. Ég hef alla vega ekki samvisku til þess að taka ákvörðun að þessu leyti sem ég veit að mun leiða þessar hörmungar yfir þjóðina.

Okkur er svolítið tamt eða mjög mörgum er tamt að segja: Þetta er ekkert vandamál, maður tekur kannski rauðvín með steikinni eða eitthvað svona, en það eru bara ekki allir í þeirri stöðu, því miður. Það eru u.þ.b. 18% af þýðinu yfirleitt sem geta ekki höndlað áfengi. Þeim fjölgar með auknu aðgengi. Þetta er út af fyrir sig sannað. Það þarf engar skotgrafir í þetta. Þetta eru einfaldlega staðreyndir sem við höldum á núna. Við erum hér (Forseti hringir.) vonandi öll í því að hlusta á það sem sérfræðingar leggja til.