149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega hefur aðgengi aukist eins og hv. þingmaður benti á, en það er yfirleitt skipulagt afskaplega vel þegar ÁTVR hefur opnað nýjar verslanir. Það er í þeirra verkahring að sinna því. Með auknum fjölda, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, þá er ekki óeðlilegt að bæta við verslunum að mínu mati.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um skipulagsvald sveitarfélaga þá er það væntanlega eitthvað sem sveitarfélögin vilja þá bara taka upp, ekki við. Sveitarfélögin þurfa að taka það upp sjálf ef þau telja sig ekki hafa nægilegt vald til að ráða því hvar og hvernig starfsemin fer fram. Ég man eftir því þegar við vorum að tala um strippstaðina og annað slíkt, það var ekki heimilt, og sveitarfélagið Reykjavíkurborg tók á því ásamt lögreglu. Við ræddum það meira segja hér líka.

Normalíseringin. Jú, hún er töluverð og samfélagsmiðlarnir og auglýsingarnar og allt þetta, það er eitthvað sem við getum illa ráðið við. Ef við náum ekki utan um það núna með þeim lögum (Forseti hringir.) sem við höfum í dag þá finnst mér einmitt í þessu frumvarpi ekkert sem bætist við og ýtir undir að við myndum (Forseti hringir.) ná utan um það.