144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að menn ættu aðeins að tóna sig niður í þessari umræðu og horfa á þetta svolítið raunhæfum augum.

Á síðasta kjörtímabili var ríkisstjórn við völd í landinu sem hafði það verkefni að fylgja aðildarviðræðum eftir. Það var ágreiningur um þetta mál milli flokkanna, og sérstaklega mikil andstaða frá ákveðnum þingmönnum og ráðherrum úr öðrum flokknum, og því hefur löngum verið haldið fram að það hafi valdið töluvert miklum vandræðum í því sambandi. Þá spyr ég: Hvernig ætti ríkisstjórn þar sem enginn ráðherra styður aðild að Evrópusambandinu og þingmeirihluti sem er skýrt á móti aðild að Evrópusambandinu að fylgja málinu eftir? (Gripið fram í.)Þetta er þannig að á svo ótal mörgum stigum í aðildarferlinu þarf að taka pólitískar ákvarðanir og pólitíska ábyrgð á ákvörðunum að slíkum viðræðum verður ekki fylgt eftir nema (Forseti hringir.) þeir sem að því standa geri það af heilum hug og trúi á það verkefni (Forseti hringir.) sem fyrir þá er lagt. (Gripið fram í.)