149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:01]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í orðum andstæðinga þessa máls hér í kvöld hafa þau andmæli verið áberandi að aukið aðgengi leiði óhjákvæmilega til aukinnar neyslu áfengis — að það sé hinn heilagi sannleikur í umræðu um áfengismál að aukið aðgengi þýði aukna neyslu, að við getum með öðrum orðum ekki gengið fram hjá áfengisverslun án þess að detta þar inn og kaupa okkur áfengi jafnvel þó að við höfum ekki haft neinn hug á því. Það er dálítið sérstakt, sér í lagi með hliðsjón af orðum hv. þingmanns í ræðu sinni. Hún sagði: Þeir sem vilja ná sér í áfengi geta náð sér í áfengi ef þeir vilja. Er það ekki einmitt lýsandi dæmi um að aðgengi er í raun fullt aðgengi? Það er ágætt að hafa í huga þversagnirnar í þessum málflutningi. Á undanförnum áratug hefur áfengisneysla á mann á Íslandi aukist um 3% á sama tíma og fjöldi ferðamanna hingað til lands hefur fimmfaldast. Það þýðir með öðrum orðum að á sama tíma og vínveitingastöðum hér á landi hefur fjölgað mikið hefur áfengisneysla á hvern Íslending sem hér er búsettur væntanlega dregist saman.

Þetta eru hin óskoruðu sannindi andstæðinga þessa máls um að aukið aðgengi hljóti að fela í sér aukna áfengisneyslu. Á sama tíma höfum við líka séð, og raunar yfir mun lengra tímabil, að aðgengi er miklu mun meira en á undanförnum áratug en unglingadrykkja hefur samt snarlega dregist saman. Hefur það kannski eitthvað með það að gera að við erum að tala um skaðleg áhrif af ofneyslu áfengis? Gæti verið að á þessu sviði, lýðheilsu eins og öðru, matarverði og öðru slíku, séum við jafnvel að taka til okkar umræðuna um að óhófleg áfengisneysla sé ekki holl? Það er ekki fjöldi áfengisverslana (Gripið fram í.) sem ræður áfengisneyslu heldur einfaldlega val okkar um það hversu mikið áfengi við kjósum að nota.