149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er mjög mikilvægt að tala ekki um þetta mál af léttúð. Það eru ekki þversagnir í mínu máli. Ég spurði, af því að hv. þingmaður er 1. flutningsmaður þessa máls: Hvert er vandamálið sem við erum að horfast í augu við í þessari löggjöf? Ég hefði haldið að hv. þingmaður mundi gjarnan svara mér því að það hlýtur að vera eitthvað að ef við þurfum að breyta þessu, einhverju sem hefur gengið vel. Aukið aðgengi og aukin neysla, þversagnir og allt þetta — ég er ekki sammála hv. þingmanni þegar kemur að þessu. Hverju þarf að breyta þegar það liggur fyrir að fólk þarf ekki breytinguna, að það getur náð sér í áfengi ef það þarf þess, ef það vill gera það? Það eru engin rök að fólk geti ekki rölt fram hjá áfengisverslun öðruvísi en að detta þar inn. Það er staðreynd og það hefur komið fram í mælingum — mér finnst áhyggjuefni í málflutningi þeirra sem styðja málið að við erum ekki að vitna í einhverjar smárannsóknir, við erum að vitna í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, við erum að vitna í landlækni, við erum að vitna í aðila sem við hljótum að treysta í öðrum málum. Ég held að almennt treysti þingmenn þessum stofnunum. Af hverju viljum við ekki horfast í augu við það að þær hafi rétt fyrir sér í þessu?

Það eru engin ein sannindi í einu eða neinu, það er vissulega rétt. En rannsókn eftir rannsókn víða um heiminn sýnir að aukið aðgengi hefur þessi áhrif. Ég rifja aftur upp það sem kom fram hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þegar við fjölluðum um þetta mál síðast: Besta forvörnin er að hafa þetta hjá ríkinu. Það er númer eitt. Við skulum ekki gleyma því.