149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Þetta er alveg hárrétt og akkúrat það sem ég nefndi áðan, bæði með skoðanakannanir sem gerðar hafa verið og allar umsagnir og annað slíkt sem við höfum fengið sem sýna meira og minna að þjóðin hefur ekki áhuga á því að breyta núverandi fyrirkomulagi. Þótt ég ætli ekki að tala fyrir hönd þjóðarinnar sýna þessar kannanir að hún hefur ekki áhuga á því.

Það var áhugavert að fyrsti flutningsmaður skyldi ekki svara spurningu minni um aukið fjármagn í forvarnir og fræðslu til eflingar lýðheilsu. Auðvitað er hægt að kveða fastar að og segja að tekið verði frá tiltekið hlutfall eða það sem samsvari tilteknu hlutfalli. Þrátt fyrir að búið sé að fella niður markaðar tekjur, ef á að stórauka eitthvað — við vitum hvað hefur runnið í lýðheilsusjóð undanfarin ár. Það mætti segja að a.m.k. hefði þurft að þrefalda það, alla vega hefði þurft að kveða mun ákveðnar að orði. Hér er þetta alls ekki í hendi. Það að leggja áherslu á eitthvað samhliða breytingu — eins og ég segi, hvað er stóraukið? Það er eitthvað sem við vitum ekki. Í 20. gr. er aðeins sagt að við bætist bráðabirgðaákvæði þar sem lýðheilsusjóður á að leggja sérstaka áherslu á rannsóknir á áfengisneyslu sem og forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna á fjórum árum, þ.e. á bilinu 2020–2024. Það er í rauninni bara það sem er undir þar en í sjálfu sér ekki aðrar forvarnir og alls ekki hvernig beri að fjármagna það. Það væri áhugavert að vita hvernig hv. þingmenn hafa t.d. hugsað sér þetta í fjármálaáætlun.