145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

505. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og þau gleðja mig, þ.e. að fá það staðfest að þetta mál er tekið alvarlega af okkar hálfu og er þegar komið í vinnufarveg. Ég geri engar athugasemdir við þann farveg. Ég tel að það sé eðlilegt að forsætisráðuneytið fari með forræði og samræmi aðgerðir þó að önnur ráðuneyti komi að sjálfsögðu við sögu. Fyrir utan utanríkisráðuneytið hlýtur velferðarráðuneytið að þurfa að koma þarna mjög sterkt að.

Ég held að það sé sömuleiðis ágætisbyrjun af okkar hálfu að fara í greiningu á því hvar við stöndum gagnvart einstökum markmiðum. Sumt þurfum við svo sem ekki endilega að greina, aðrir hafa gert það fyrir okkur. Af því að fyrsta markmiðið snýr að fátæktinni og að útrýma henni þá er nærtækt að benda á nýlega skýrslu UNICEF um fátækt meðal barna á Íslandi.

Er það ekki augljóst mál að þar er svið sem við þurfum að taka á og gera betur og hafa það lið í því og framlag af okkar hálfu á heimsvísu við að útrýma fátækt í öllum myndum hvernig sem hún birtist? Ekki ætti að þurfa að efast um að góð samstaða sé um að láta það vera í sérstökum forgangi að þessu leyti að taka á stöðu þar sem börn alast upp við skort eða verulegan skort.

Ég vil einnig nefna sem mögulegan lið í þessu að í gegnum Norðurlandaráð vinnum við með stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn þar sem byggst hefur upp á síðustu árum mjög öflug eining með einum sjö aðildarstofnunum Sameinuðu þjóðanna, margar þeirra miðlægar í áætluninni sjálfri, og það er aðeins komið á kortið að Norðurlöndin saman með stofnunum Sameinuðu þjóðanna, og þá í gegnum útibú þeirra í Kaupmannahöfn, vakti þetta og fylgist með því. Það er líka möguleg leið fyrir okkur að vera þátttakendur í því á norræna vísu að leggja okkar af mörkum þannig. (Forseti hringir.) En við þurfum auðvitað fyrst og fremst að standa vel að því sem að okkur snýr hér heima.