151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[13:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er komin hingað til að taka undir með þeim hv. stjórnarandstöðuþingmönnum sem talað hafa hér. Ég vil spyrja forseta hvort ekki sé ástæða til þess að forseti fundi með formönnum fastanefnda, vegna þess að mér er kunnugt um að í mörgum nefndum eru tilbúin þingmannamál og verið er að vinna nefndarálit. Ég veit t.d. að það eru tvö mál frá Samfylkingarþingmönnum sem eru tilbúin sem mun verða óskað eftir að fari á dagskrá, verði afgreidd út úr nefndum til samþykktar. Núna vitum við öll sem hér erum að dagskráin hefur verið uppfull af þingmannamálum á þessu þingi. Við höfum haldið hér uppi dagskránni, stjórnarandstöðuþingmenn. Það gengur ekki og er ekki til sóma fyrir þingið ef það á síðan ekki að hleypa þeim málum út úr nefndum sem eru tilbúin. Ég vona forseti hugi að þessu vegna þess að það mun ekki verða friður ef þetta ætlar að ganga illa.