144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna og fjárfestingar í íbúðarhúsnæði.

568. mál
[16:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Fyrst varðandi gjaldeyrishöftin sem við ættum kannski bara að kalla fjármagnshöftin, það má ekki skilja orð mín þannig að það standi til að veita undanþágur fyrir lífeyrissjóði áður en við höfum tekið á rót vandans, sem liggur í snjóhengjunni í óuppgerðum slitabúum, og síðan heildstæðri lausn fyrir þennan innlenda þrýsting sem meðal annars stafar af því að lífeyrissjóðir þurfa að geta dreift áhættu sinni betur. Ég tel þvert á móti að forsenda þess að við getum farið að lyfta höftunum og hleypa lífeyrissjóðum aftur út úr landinu sé að það fáist farsæl lausn í það sem tilheyrir slitabúunum og snjóhengjunni. Það miðar ágætlega í því.

Varðandi lífeyrissjóðina að öðru leyti tek ég undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, það er áhyggjuefni hve hlutfallslega stórir sjóðirnir eru í okkar tiltölulega litla hagkerfi. Það er veruleg hætta á því að fjármagn sem er svona lokað inni geti leitt til bólumyndunar. Það virðast þó ekki vera nein augljós skýr merki um að hér sé komin af stað nein bóla, en þátttaka lífeyrissjóðanna á íbúðamarkaði hefur sögulega verið mikilvæg. Þeir hafa haft mikilvægu hlutverki þar að gegna og ég er ekki ósammála þeim sem hér hafa mælt fyrir að þeir eigi að gegna þar hlutverki áfram. Það er hins vegar álitamál hversu mikið ríkið þarf að hafa aukin afskipti til þess eða liðka fyrir því að það geti gerst.

Það er rétt sem hér hefur komið fram með Íbúðalánasjóð, hvernig hann hefur verið fjármagnaður í gegnum tíðina. Síðan hafa lífeyrissjóðirnir líka lánað sjóðfélögum sérstaklega og einhverjar heimildir hafa þeir samkvæmt lögum til að fjárfesta í félögum sem mörg hver stunda einmitt þessa starfsemi. Ég hygg að þeir séu allnokkuð stórtækir þegar (Forseti hringir.) betur er að gáð í gegnum hin ýmsu félög sem eru starfandi á þessum markaði.