135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:07]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var hefðbundinn reiðilestur sem eins og svo oft áður minnti á Soffíu frænku. Hv. þingmaður sá ekkert jákvætt. Það sem vakti athygli mína þegar hann fór yfir málið var að hann vék ekki einu orði að því samstillta átaki sem hæstv. viðskiptaráðherra ásamt alþýðuhreyfingunum í landinu hefur staðið fyrir til þess að stemma stigu við ásókn kaupmanna til þess að hækka úr hófi fram verðlag á nauðsynjavörum í skjóli þessa efnahagsástands.

Þetta er í annað skipti sem hv. þingmaður kemur hér upp á örfáum dögum og neitar að horfast í augu við veruleikann. Hann neitar að horfast í augu við þá staðreynd að á Íslandi er opið hagkerfi og hvað sem hv. þingmaður segir þá er það þannig að á síðustu dögum og vikum hefur verið gerð samstillt atlaga að íslensku krónunni, atlaga í þeim mæli að það var rætt á Bandaríkjaþingi við sjálfan seðlabankastjóra Bandaríkjanna núna ekki lengra síðan en í gær. (Gripið fram í.)

Þær aðgerðir sem hv. þingmaður reifar hérna eru margar ágætar. En þetta eru allt saman smáskammtalækningar. Þær munu hjálpa einstökum hópum. En það er ein aðgerð þarna inni sem er vitræn og gæti, ef hún hefði verið dýpra útfærð, skipt verulegu máli. En þar einmitt opinberast vel sýn, eða eigum við að segja skortur á sýn, hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á eðli vandans sem blasir við. Hv. þingmenn leggja til að gjaldeyrisforði Seðlabankans verði aukinn. Það er eitt af því sem þessi ríkisstjórn hefur lýst yfir að verði gert og með þeim hætti (Gripið fram í.) sem dugar. Hv. þingmaður talar hér um og leggur fram tillögu um 80 milljarða. Herra trúr! Hvað heldur hv. þingmaður að 80 milljarðar af gjaldeyri dugi þegar við horfum fram á að bankarnir þurfa samtals að meðaltali að standa skil á hundrað milljörðum króna á mánuði í erlendum gjaldeyri? Það vill svo til að í landinu eru til þúsund milljarðar af erlendum gjaldeyri. En 80 milljarða tillaga hv. þingmanna bjargar nú litlu (Forseti hringir.) enda hefur hv. þingmaður þegar verið að hlaupa frá henni á síðustu dögum. Hún er til marks um skammsýni þessa annars ágæta flokks.