140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir mjög langþráða tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun. Ég vil spyrja einnar einfaldrar spurningar þar sem nú hafa nokkrar virkjanir verið teknar úr orkunýtingarflokki og settar í biðflokk og frá því sem faglegt mat benti til, og þetta byggir náttúrlega á mjög miklum pólitískum deilum sem hafa staðið um þetta mál: Er þetta ekki hættulegt gagnvart því að menn geti farið öfuga leið? Að þetta gefi fordæmi fyrir því að menn geti farið öfuga leið og tekið virkjanir úr verndarflokki yfir í biðflokk eða úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk með jafnauðveldum hætti og hér er gert að setja virkjanir úr nýtingarflokki í biðflokk?