140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að vera algjörlega ósammála orðum hv. þingmanns. Hér er verið að leggja grunn að sátt inn í framtíðina. Við erum ekki að tjalda til einnar nætur, (TÞH: Ósátt.) heldur er verið að búa í haginn fyrir framtíðina og reyna að skapa sátt. Undanfarin ár hafa einmitt slíkar deilur verið uppi um hvern einasta virkjunarkost. Verndarsinnar hafa komið fram og fært rök fyrir því af hverju ætti að vernda og nýtingarsinnar hafa líka komið með rök fyrir því af hverju ætti að nýta.

Allir þessir virkjunarkostir hafa farið í það faglega góða mat sem hv. þingmaður lýsti áðan. Það að núna skuli vera teknir virkjunarkostir á tveimur svæðum og settir í biðflokk tímabundið á meðan (Gripið fram í.) ýtt er til hliðar þeim vafa og deiluatriðum sem (Forseti hringir.) upp hafa komið hlýtur aðeins að verða til þess að bæta þingsályktunartillögu sem á að standa (Forseti hringir.) til margra ára. (TÞH: Pólitískt …)