140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins og ég sagði áðan mjög mikilvægt í öllu tilliti að við náum að hrinda í gang einhverri framkvæmdaáætlun um það hvernig við ætlum að virkja í þessu landi. Þetta plagg uppfyllir ekki þá þörf eins og það liggur fyrir.

Í neðri hluta Þjórsár hefur farið fram einhver hin mesta undirbúningsvinna vegna fyrirhugaðra virkjana og gagnvart þeim virkjunarkostum sem við erum með. Lykillinn að því að geta farið af stað er að fara af stað í neðri hluta Þjórsár.

Þegar því er haldið fram, m.a. af hæstv. ráðherrum, að þetta skipti engu máli, það séu svo margir aðrir virkjunarkostir tilbúnir og að þetta muni ekki tefja framkvæmdir, þá er það ekki rétt. Hjá Landsvirkjun er það einfaldlega þannig að enginn annar virkjunarkostur er klár nema neðri hluti Þjórsár til að fara af stað með í framkvæmdir á þessu ári og það mundi hafa mjög mikil og sterk efnahagsleg áhrif hér strax á næsta ári.

Já, ég tel að það hafi verið faglegt að komast að þeirri niðurstöðu og staðfesta þá niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og allra sem hafa um þetta fjallað að hefja framkvæmdir í neðri hluta Þjórsár og þar með að hafa fleiri af þeim virkjunarkostum sem hér voru nefndir, af því ég er spurður beint að því, inni í nýtingarflokki áfram. Ég tel að full rök séu fyrir því og að þetta séu mjög ítarlega rannsakaðir virkjunarkostir sem í rauninni þurfi ekki að deila um og væri vel hægt að fara af stað með til að uppfylla þá brýnu þörf sem samfélagið er í fyrir þessi verkefni.

Varðandi háhitasvæðin þá greinir vísindamenn á í þeim efnum. Þar er auðvitað uppi mörg sjónarmið. Við nálgumst þetta af varfærni. Það eru allir sem gera sér grein fyrir því að það tekur (Forseti hringir.) lengri tíma og verður að gerast í hægari og hægari skrefum að virkja háhitasvæðin (Forseti hringir.) en vatnsaflið. Það er þess vegna sem þetta plagg er svo alvarlegt að það er aðeins ein vatnsaflsvirkjun sem stendur til boða, (Forseti hringir.) ein ný vatnsaflsvirkjun af virkjunarkostum samkvæmt því.

(Forseti (ÞBack): Forseti ítrekar enn og aftur við þingmenn að virða tímamörk.)