140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi svör.

Ég kýs að skilja hv. þingmann svo, og hann leiðréttir mig þá, að ef til dæmis virkjanir í neðri hluta Þjórsár hefðu verið á þeim stað sem þær voru áður en ráðherrarnir breyttu því þá hefði þingmaðurinn getað fellt sig við slíka tillögu. Nú gef ég mér reyndar að aðrir hlutir hefðu verið á sama stað líka. Mér heyrist þessi umræða snúast fyrst og fremst um þær virkjanir sem eru tilbúnar þarna.

Ég spurði hæstv. ráðherra áðan út í þær umsagnir sem virðist hafa verið tekið tillit til þegar farið var að breyta þessari röðun. Er eitthvað sem bannar ráðherra, samkvæmt lögunum sem um ræðir, að færa virkjanir með öðrum hætti á milli, t.d. ef kæmu vel rökstuddar umsagnir um að rétt væri að virkjun í verndarflokki færi í biðflokk eða úr biðflokki í nýtingarflokk? Er eitthvað í lögunum sem bannar slíkt? Ég er búinn að lesa í gegnum þessi lög og ég fæ ekki séð að neitt banni það. Það er hins vegar háð mati þeirra sem fara yfir það og vitanlega þurfa umsagnir að vera vel rökstuddar ef á að taka tillit til þeirra. Ég vona að ráðherrarnir hafi haft mjög góðan rökstuðning fyrir þeim breytingum sem þeir gerðu fyrst farið var af stað með þær.

Þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni að hann teldi best að þetta yrði ekki klárað á þessu þingi, þá á þingmaðurinn væntanlega við á þessu vorþingi sem endar núna í maí. Auðvitað er hættan sú, ef málið liggur óklárað lengi, að hér fari litlar framkvæmdir af stað. Þar af leiðandi (Forseti hringir.) er mikilvægt ef ekki næst að klára þetta í vor að það verði eitt af fyrstu verkum okkar (Forseti hringir.) næsta haust að hefja þá miklu vinnu sem augljóslega eru mjög skiptar skoðanir um.