145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í gær urðu þau gleðilegu tíðindi að menntamálaráðherra staðfesti við sveitarstjórnarfulltrúa frá Vopnafirði að farið yrði af stað með tilraunaverkefni til tveggja ára um samstarf milli Framhaldsskólans á Laugum og Vopnafjarðar um framhaldsdeild fyrir fyrsta árið á Vopnafirði. Það skiptir miklu máli fyrir það unga fólk sem hyggst fara í framhaldsnám að geta verið einu ári lengur heima í foreldrahúsum. Til bráðum tíu ára hefur Framhaldsskólinn á Laugum átt samstarf við Þórshöfn á sama hátt og það hefur gengið afskaplega vel, nemendur þar hafa verið í staðarnámi á Þórshöfn en komið alltaf einu sinni í mánuði að Laugum og dvalið þar í viku og verið undir umsjón fagkennara en að öðru leyti hafa þeir haft sinn kennara á Þórshöfn og verið í fjarfundakennslu á Laugum. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þetta unga fólk og fyrir foreldra þess að fengist hefur fjármagn til að gera þetta verkefni að veruleika.

Ég vil fyrir hönd okkar í Norðausturkjördæmi, en allir þingmenn hafa unnið að þessu og stutt við að þetta geti orðið að veruleika, þakka menntamálaráðherra fyrir að staðfesta að þetta nám geti farið af stað í haust og að skólinn á Laugum geti farið að undirbúa samstarfið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna