Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðir ríkisstjórnar í efnahagsmálum.

[10:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kynnti fjárlög síðasta haust undir yfirskriftinni Unnið gegn verðbólgu. Við í Samfylkingunni bentum strax á að fjárlögin væru hvorki til þess fallin að vinna gegn verðbólgu né verja heimilisbókhald viðkvæmustu hópanna. Sú gagnrýni reyndist rétt. Verðbólgan er vaxandi, er komin upp í 10% og heimilin standa berskjölduð gagnvart vaxtahækkununum; hærri vöxtum en við höfum séð síðan skömmu eftir hrun. Því féll ríkisstjórnin á því prófi a.m.k.

En Samfylkingin hefur ekki látið sér nægja að gagnrýna ríkisstjórnina. Við höfum þvert á móti lagt fram tillögur að aðgerðum gegn verðbólgunni og til að verja viðkvæmustu hópa landsins. Samfylkingin kynnti kjarapakka sem gekk út á að taka á þenslunni þar sem hún er í raun og veru, eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og methagnað hjá bönkunum, að draga þannig úr hallarekstri ríkissjóðs en hlífa um leið heimilum, t.d. með því að falla frá ýtrustu gjaldahækkunum ríkisstjórnarinnar.

Allt þetta veit hæstv. fjármálaráðherra, en hann hefur hingað til helst svarað uppbyggilegum tillögum okkar með hefðbundnum pólitískum skætingi. Hann sagði t.d. hér í ræðustól að hv. þm. Kristrún Frostadóttir væri að ala á öfund með hófsömum og ábyrgum tillögum um aðhald á tekjuhlið ríkissjóðs. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra hins vegar kallað eftir aðhaldi á tekjuhlið ríkissjóðs og seðlabankastjóri, peningastefnunefnd, gerði slíkt hið sama í gær. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort vænta megi þess að ríkisstjórnin breyti um nálgun í fjármálaáætlun í næstu viku. Kemur til greina að taka á þenslunni þar sem hún er í raun og veru, eins og Samfylkingin hefur bent á, t.d. með því að eigendur fjármagnsins leggi meira af mörkum eða með hvalrekaskatti á banka og stórútgerðir?