135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:39]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir þessa ágætu og yfirgripsmiklu ræðu. Hann benti á að sjálfstæð utanríkisstefna væri ekki endilega sama og virk utanríkisstefna og ég er algjörlega sammála því. En mér fannst hins vegar liggja í máli hans, og kannski hef ég ekki tekið rétt eftir, að sjálfstæð utanríkisstefna væri óhugsandi nema menn væru á móti Atlantshafsbandalaginu.

Ég held að í sjálfu sér geti ríki alveg ákveðið að hafa sjálfstæða og virka utanríkisstefnu þó svo að þau kjósi þetta form, milliríkjasamvinnu sín á milli og að það sé ekkert sem girði fyrir það. (Gripið fram í.) Það er enginn sem hlýðir Bandaríkjamönnum alltaf, hv. þingmaður, þvert á móti er markmið utanríkisstefnu Íslands nú að marka sjálfstæðisstefnu út frá íslenskum hagsmunum. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verði að láta reiði sína út af undirlægjuhætti fyrri ríkisstjórnar gagnvart Bandaríkjamönnum í ljós við hana og fara að láta núverandi ríkisstjórn í friði og hætta að bera upp á hana sakir sem núverandi ríkisstjórn ber enga ábyrgð á byrði út af. Það er eðlilegt að þeir sem ákváðu að ganga með Bandaríkjamönnum í einu og öllu í Írak beri byrðarnar af því og svari fyrir það.

En af því að hv. þingmaður nefndi að það væru ekki endilega lýðræðislegir hlutir sem lýðræðisríkin tækju sig saman um á vettvangi Atlantshafsbandalagsins þá vil ég spyrja hvort hann sé þeirrar skoðunar að það sé andlýðræðislegt að ríki beiti vopnavaldi sér til sjálfsvarnar. Er hann með öðrum orðum andvígur því að ríki megi beita réttinum til sjálfsvarnar og nota til þess vopn og kröftug vopn? Er það afstaða hans?