151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í gær ræddum við stöðuna varðandi bólusetningar þjóðarinnar og þá sýn sem við höfum á næstu vikur og mánuði. Ég er þeirrar skoðunar að fram undan sé tími mikilla tækifæra með opnun landsins. Ég heyri allt í kringum mig að pantanir streymi inn til hótela og bílaleigna. Vatnaskil urðu 16. mars þegar samþykkt var að taka gild bólusetningarvottorð frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Bílaleigan Blue í Reykjanesbæ sá ótrúleg viðbrögð í pöntunum á bílaleigubílum strax í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Bílaleiga Akureyrar hefur tilkynnt að panta eigi 800 nýja bíla. Það er merki um bjartsýni á sumarið. Það sama er að gerast hjá hótelum sem ég þekki til í kjördæmi mínu. Þangað streyma inn pantanir fyrir sumarið og dæmi eru um að 50% bókana liggi þegar fyrir. Guðmundur Viðarsson í Skálakoti segir mikla ferðaóþreyju komna í vel borgandi Bandaríkjamenn, þaðan streymi inn pantanir og mikið verði að gera þegar líður á sumarið. Aftur á móti eru pantanir tregari í lengri hestaferðir frá löndum þar sem íslenski hesturinn býr.

Virðulegi forseti. Þessu til viðbótar eru flugfélög að setja sig í startholurnar fyrir sumartraffíkina. Icelandair er með gríðarlega öflugt net áfangastaða og hefur á umliðnum mánuðum flutt út ferskar afurðir og haldið gríðarlega góðu sambandi við nágrannaríkin. Bandaríska flugfélagið Delta er að fara af stað með mikið sætaframboð frá nokkrum áfangastöðum í Bandaríkjunum til Keflavíkur. Það er mikill vitnisburður um góða stöðu í þessu landi eftir Covid-faraldrinum. Við eigum að gleðjast yfir því. Nýtt flugfélag, Play, er að senda áhafnir í þjálfun og er væntanlegt á markaðinn þegar landið opnar í sumar. Það er eins og allt falli með okkur Íslendingum. Á Suðurnesjum kom eldgos sem á eftir að draga að sér þúsundir ferðamanna og lífga upp á atvinnulífið á þar.