Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðir ríkisstjórnar í efnahagsmálum.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel það almennt ekki góðri lukku stýra að líta í hina áttina þegar einhverjar staðreyndir blasa við. Auðvitað er það bara staðreynd, og það er mælanleg staðreynd, að markaðirnir hafa misst trú á að við náum verðbólgunni niður á næstu misserum. Það er bara mælanleg staðreynd. Við verðum að gangast við því. Ég er að benda hér á að í ár er aðhald ríkisfjármálanna miklu meira en almenn umræða hefur gefið til kynna. Við þurfum að horfa til þess í næstu áætlun okkar hvað við gætum gert frekar til þess, já, að standa með Seðlabankanum, sem hefur þetta skýra hlutverk að halda verðgildi peninganna í skefjum, þ.e. að halda verðbólgunni í skefjum þannig að verðgildi peninganna sé verndað. Við höfum 2,5% verðbólgumarkmið og þegar okkur rekur mjög langt frá því þá er það mjög skaðlegt. Ég get alveg tekið undir það að Seðlabankinn getur ekki einn staðið í því. Ég hef heldur aldrei haldið því fram, en Seðlabankinn hefur svo sem ekkert verið fullkominn og óskeikull í öllu því sem hann hefur verið að fást við. Aðalatriðið er það að við komumst ekkert með því að vera að benda fingrinum hvert á annað. Það þarf að taka höndum saman og ná niður verðbólguvæntingunum og það er vel gerlegt. Ég hef trú á því og við munum skila því í hús.