149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Jafnréttissjóður Íslands.

570. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Því er til að svara að ég veit ekki til þess að svona heildstætt mat, eins og hv. þingmaður vísar í, hafi farið fram. Það gæti þó vel hafa farið fram hjá mér. Við höfum að sjálfsögðu samantekt um þau verkefni sem þessi sjóður hefur úthlutað til og er hægt að nálgast hana á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Ég held hins vegar ekki að þetta sé það sem hv. þingmaður er að fiska eftir þegar að þessu kemur. Mögulega fellur málið svolítið á milli skips og bryggju akkúrat núna vegna þess að það var verið að flytja þessi ráðuneyti til og kannski liggur svarið þar.

Hvað varðar samráðið er hvergi tryggt í þessari tillögu að það eigi sér stað. Það er ekki minnst á það, hvorki í nefndarálitinu né þingsályktunartillögunni sjálfri þannig að það sem við höfum eru orð hæstv. forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um að hún muni hafa samráð við skipan stjórnar þessa sjóðs. Við getum að sjálfsögðu sjálfar kallað eftir því hér á þessu þingi að því verði sinnt vel og vandlega.

Sömuleiðis held ég að skýrslubeiðni, sem ég myndi gjarnan stíga inn í með hv. þingmanni, væri ágætishugmynd að því að fá að vita hvernig heildstæðri fjármögnun og stefnumótun á sviði rannsókna á sviði jafnréttismála hafi verið háttað séu þessar upplýsingar ekki fyrir hendi.