151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þegar rennur á kvöldið á degi tvö í umræðu um þetta fína þingmál okkar í Viðreisn vill maður mögulega tína til nýja punkta eða hnykkja á einhverjum punktum. En áður en ég geri tilraun til þess vil ég segja að það sem slær mig kannski mest eftir þessa umræðu, sem hefur verið mjög áhugaverð, er þessi nær einróma gleði og hamingja sem allir þeir sem hafa tekið hér til máls, nær allir, lýsa yfir vegna þess að málið skuli vera komið á dagskrá. Það eitt og sér er náttúrlega mikið gleðiefni og megum við bara ræða þetta mál af sem mestri dýpt af því að það verður að segjast eins og er að við erum kannski að fara svolítið á breiddina í þessu. Það stendur vonandi til bóta.

Mig langar svolítið að taka snúning á því hverjir það eru sem hagnast mest á inngöngu Íslands. Okkur hefur verið mjög tamt í umræðunni að tala um hagnaðinn, hinn hreina efnahagslega hagnað, og þá í gegnum fríverslunarsamningana. Nú ætla ég sannarlega ekki að gera lítið úr fríverslunarsamningum. Velsæld okkar byggir að stórum hluta á því að við höfum náð góðum árangri þar, ekki síst í gegnum samstarf okkar við Evrópusambandið, í gegnum samninga um Evrópska efnahagssvæðið. En þetta er náttúrlega bara eitt púsl í hinni stóru mynd af farsæld og hagnaði íslenskrar þjóðar. Við erum sjálfstæð þjóð og við hljótum að vilja að staða okkar á alþjóðavettvangi endurspegli það og að við höfum sæti við borðið í þessu samfélagi þjóða. Það er ástæðan fyrir því að við erum stoltir aðilar að Sameinuðu þjóðunum, að NATO, að Norðurlandaráði, að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, að Schengen, að Evrópska efnahagssvæðinu og Mannréttindadómstóli Evrópu. Við stöndum ekki utan við þessi samtök sem við þó hæglega gætum. Það gæti verið ein ákvörðunin en við höfum tekið hina ákvörðunina Það er ekki svo að við séum óvart þar og séum núna, þegar við erum að ræða Evrópusambandið, að ræða kosti og galla alþjóðlegs samstarfs. Við höfum farið í gegnum þessa hluti, metið kosti og galla út frá stóru myndinni um hagsæld og hagnað íslensks samfélags, ekki eingöngu út frá viðskiptasamningum. Við viljum vera aðilar, þátttakendur, gildir þátttakendur á vettvangi þessa samstarfs og bræðralags sem hefur mikil áhrif á hagsmuni okkar og framtíð, ekki bara okkar sem eylands heldur á framtíð okkar og hagsmuni íslenskrar þjóðar í samfélagi þjóða. Af sömu ástæðu ættum við að vera hluti af Evrópusambandinu, standa þar jafnfætis þeim sjálfstæðu og fullvalda þjóðum sem kjósa það bandalag, sem sjá sjálfstæði sínu og fullveldi, hagsæld, já og hagnaði, best borgið í samfélagi slíkra þjóða.

Við erum þegar komin með annan fótinn inn. Við erum í samstarfi um Evrópska efnahagssvæðið og það sem eftir stendur, þegar upp er staðið, eru raunverulega fyrst og fremst þau lýðræðislegu áhrif sem við myndum njóta með inngöngunni. Andstæðingar Evrópusambandsins hafa reynt að tala niður kostina af inngöngu okkar með því að tala um lítil eða engin áhrif smærri þjóða í alþjóðasamstarfi. Mér finnst með miklum ólíkindum að akkúrat þeir sem tala áhrifin niður skuli vera fulltrúar Íslendinga, þessarar örþjóðar sem hefur unnið kraftaverk aftur og aftur með áhrifum sínum á akkúrat þessum sama alþjóðavettvangi, innan um akkúrat þessar þjóðir og með akkúrat þessum þjóðum. Ég sem mikill aðildarsinni gæti tínt til önnur rök en þessi gegn aðild, þau væru skárri. Mér finnst þetta alveg stórmerkilegt. Evrópusambandið stendur nefnilega flestum þessum alþjóðasamtökum eða stofnunum og samböndum framar í því að vanda sig við að reyna að tryggja áhrif þessara litlu þjóða. Sem dæmi má nefna að allar þjóðir hafa nákvæmlega einn fulltrúa í hverju ráði ráðherraráðs Evrópusambandsins og ég hef ekki stórkostlegar áhyggjur af því að fulltrúar okkar muni ekki láta til sín taka þar.

Andstæðingar hafa líka haldið því fram hér að við munum ekki hafa nægilegt vægi eða vald í Evrópuþinginu til að inngangan borgi sig. Það er rangt af mörgum ástæðum. Ein þeirra er t.d. sú að þar eru samstarfsflokkar líkra flokka. Við í Viðreisn erum t.d. í samstarfi við frjálslynda flokka. Sósíaldemókratar eins og Samfylkingin hafa sitt flokkabandalag, íhaldsflokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn sitt og þannig mætti lengi telja. Við eigum því samstarfsaðila þvert á Evrópusambandið, líkt og við eigum samstarfsaðila hér innan lands. Með inngöngu hefðum við kjörna fulltrúa í þessum samsteypum. Við myndum hafa talsmenn í þeim hreyfingum í Evrópu sem hafa hvað mest áhrif á það hvernig hagur okkar í viðskiptum og mannréttindum innan álfunnar þróast. Í ákveðnum málum hafa þjóðir líka skipað sér í fylkingar innan Evrópusambandsins. Norðurlöndin hafa staðið saman, við værum ekki ein, við værum þjóð á meðal þjóða. Við hefðum loksins völd til að hafa áhrif á þá löggjöf sem við erum að innleiða nú þegar, allt frá upphafsstigum. Það skiptir máli.

Þátttaka í innri markaði Evrópusambandsins hefur fært okkur fjórfrelsið, frjálst flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns. Það þýðir að við getum lært og starfað hvar sem er í Evrópu ef okkur hugnast. Þetta gagnast ekki síst unga fólkinu okkar sem fer út í nám, sem vill stofna fyrirtæki og auka útflutningstekjur þjóðarinnar. Þetta gagnast líka okkar litla samfélagi hér vegna þess að ef við höldum vel á spöðunum þá fáum við fólkið okkar heim aftur. Það er það sem við þurfum á að halda. Við þurfum á því að halda að unga fólkið okkar bindi á sig sauðskinnsskóna, haldi út í heim, læri og nemi, kynnist nýjum háttum, nái sér í menntun, þekkingu og færni, auki víðsýni sína og komi svo heim með þann boðskap. Það er það sem við þurfum. Við þurfum að opna dyrnar fyrir unga fólkið okkar út í heim og hafa þær enn opnari til að það snúi heim aftur. Það er það sem ég trúi að aðild okkar að Evrópusambandinu muni hafa í för með sér.

Mig langar líka að nefna hlut sem stendur mér nærri og okkur í Viðreisn og það eru loftslagsmálin. Staðan er sú að Evrópusambandið hefur tekið algera forystu í þeim málum með, og nú ætla ég að leyfa mér að nota enska heitið, „Green Deal“-tillögum sínum. Þær hafa það t.d. umfram það sem verið er að gera hér á vettvangi stjórnvalda að einkaframtakið og einkageirinn er tekinn inn í þær tillögur. Hér hefur ríkisstjórnin lagt megináherslu á aðgerðir hins opinbera í þessum efnum, barið sér á brjóst fyrir mikil fjárútlát þar, sem er gott og blessað og jákvætt. En við þurfum að sjá hvað kemur út úr því vegna þess að það er ekki nóg eitt og sér að setja peninga í hlutina og hið opinbera mun ekki eitt og sér ná tilætluðum árangri. Við verðum að fá sameiginlegt átak allra. Við þurfum einkageirann með í þetta, við þurfum menntageirann með í þetta. Þetta hefur Evrópusambandið séð. Þetta nærsamfélag tuga þjóða sem eru mismunandi staddar, ekki síst í nálgun á umhverfismálum, hefur náð samstöðu um stefnu sem er framsýnni og framsæknari en okkar stefna, því miður. Þar getum við margt lært. Evrópusambandið hefur t.d. áttað sig á því að mikilvægt er að hafa fyrirtækin og atvinnulífið með í för allt frá upphafi. Þau hafa líka áttað sig á því að það er ekki gott fyrir hið frjálsa markaðshagkerfi, og þar með hagsæld þjóða, ef stórfyrirtækin skilja lítil og meðalstór fyrirtæki eftir í reyknum af því að stórfyrirtækin ein hafa burði til að takast á við auknar kvaðir sem munu hljótast af því að við erum að takast á við loftslagsvandann. Nei, það er verið að leggja til stuðning. Það er verið að leggja til margvíslegan beinan stuðning til að tryggja að litlu fyrirtækin séu með í för og að þetta skekki ekki markaðsaðstæður þeirra. Þar mættum við læra.

Herra forseti. Svarið við spurningunni um hver hagnist mest á inngöngu Íslands í Evrópusambandið er augljóst. Það er Ísland sem hagnast mest. (Forseti hringir.) Unga fólkið hagnast á þeim tækifærum sem felast í inngöngunni. Heimili landsins hagnast á gengisstöðugleikanum og vaxtalækkun sem fylgir upptöku evrunnar. (Forseti hringir.) Fyrirtækin hagnast á fyrirsjáanleikanum sem fylgir auknum stöðugleika. Bændur hagnast mest á styrkjakerfinu sem tekur sérstaklega (Forseti hringir.) til landbúnaðar á norðurslóðum. Þjóðin hagnast mest á auknum lýðræðislegum áhrifum okkar á löggjöf Evrópusambandsins.