135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

héraðs- og tengivegir í Norðvesturkjördæmi.

566. mál
[15:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Svar mitt við spurningum hv. þingmanns er eftirfarandi:

Í gildandi vegaáætlun 2007–2010 eru veittar undir liðnum Tengivegir 1.573 millj. kr. Á liðnum Ferðamannaleiðir eru veittar 278 millj. kr. og á liðnum Þjóðgarðsvegir 270 millj. kr.

Fjármagn á þessum liðum, samtals 2.121 millj. kr., fer allt í tengivegi. Auk þess eru Tröllatunguvegur og Þverárfjallsvegur, en þeir teljast til tengivega, fjármagnaðir af liðnum Verkefni á landsbyggð og söluverði Símans. Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita 250 millj. kr. til viðbótar í Norðvesturkjördæmi í ár til tengivegaframkvæmda í kjördæminu.

Þetta er hluti af viðbótaráætlun sem við höfum sett fram til að auka við þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti 10. júlí síðastliðinn. Þær gengu m.a. út á stórauknar framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum. En mestu þess fjármagns verður varið til endurbyggingar með bundnu slitlagi.

Fram að þessu hafa fjárveitingar á vegaáætlun til tengivega verið af skornum skammti og eingöngu allra umferðarmestu tengivegir verið lagðir bundnu slitlagi. Megináherslan hefur verið á uppbyggingu á stofnvegakerfinu með bundnu slitlagi. Í gildandi vegáætlun var fjármagn til tengivega aukið töluvert og er tekin sú stefna að leggja sem mest af bundnu slitlagi á tengivegina. Ef ég man rétt, virðulegi forseti, hafa rúmar 2.000 millj. kr. nú verið settar í tengivegina. Hvort þær voru 600 eða 800 í fyrra man ég ekki nákvæmlega.

Við ákvörðun um forgangsröðun framkvæmda á tengivegum er fyrst og fremst horft til umferðar og svo til vega sem eru sæmilega uppbyggðir og sterkir og tilbúnir að taka við bundnu slitlagi án mikillar endurbyggingar.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður:

„Er til úttekt á því á hvaða vegi væri hægt að leggja slitlag án þess að til verulegrar grunnuppbyggingar þyrfti að koma?“

Starfsmenn Vegagerðarinnar fylgjast vel með ástandi vegakerfisins en misjafnt er hve mikið þarf að styrkja vegi áður en lagt er á þá bundið slitlag. Jafnframt eru til úttektir og mælingar á burðarþoli stórs hluta vegakerfisins og eru þær endurteknar með reglulegu millibili. Formleg heildarúttekt á vegakerfinu með hliðsjón af styrkingarþörf vegna lagningar bundins slitlags liggur hins vegar ekki fyrir. Þá hefur ekki verið skilgreint hvað telst verulegt í þessu tilfelli.