145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

staða mála í heilbrigðiskerfinu.

[15:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki rangtúlkað ályktanir Alþingis. Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að ljúka undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefði verið tryggð. Eina undankoman sem hæstv. ráðherra á frá uppbyggingu við Hringbraut er ef hann reynir að halda því fram að fjármögnun hafi ekki verið tryggð. En mér skilst nú að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar heldur þvert á móti segja menn að fjármögnun hafi verið tryggð.

Hæstv. ráðherra gumar sér af stökkum. Það er ekki nóg að stökkva ef menn stökkva aftur á bak, það þarf að stökkva áfram. Hversu mikið af þessari aukningu, virðulegi forseti, er vegna launahækkana sem auðvitað þarf að bæta á Landspítalanum eins og á öllum öðrum stofnunum?

Grundvallaratriði hér er að þrátt fyrir fordæmalaust gæftaár í ríkisbúskapnum, einstaklega góða stöðu ríkissjóðs, þá er ekki bætt úr brýnum vanda í heilbrigðiskerfinu. Það þýðir ekkert að tala um niðurskurðarár síðasta kjörtímabils. Það var niðurskurður af brýnni (Forseti hringir.) nauðsyn, ekki af pólitískri hentistefnu eða pólitískri þörf. Þvert á móti var reynt að koma í veg fyrir þann niðurskurð eins og kostur er. En það er pólitísk stefna (Forseti hringir.) hér að viðhalda sveltistefnu á Landspítalanum, það virðist alveg greinilegt, vegna þess að hæstv. ráðherra stærir sig (Forseti hringir.) bæði af úrræðaleysi í húsnæðismálum Landspítalans og af því að ekki sé bætt úr þeim aðstæðum sem gera spítalanum að taka á móti fólki á bílastæðum.