140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og verð að hrósa honum fyrir að hafa þó að einhverju leyti reynt að setjast yfir þessa greiningu. Ég man eftir því að hafa átt orðastað við annan þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, sem lagði fram mál af svipuðu tagi, þar sem engin slík greining hafði hafist að neinu leyti. Það var auðvitað mjög gagnrýnt við meðferð þess máls sem aldrei varð að lögum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra næst út í 4. gr. þar sem verið er að tala um tiltekin sérverkefni sem hægt sé að fela sýslumannsembættunum. Eru einhver slík verkefni í pípunum? Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hægt sé að fela hinum níu embættum, sem verða þá væntanlega stærri stjórnsýslueiningar en sýslumannsembættin eru mörg hver í dag, slík verkefni og hvort tekin hafi verið einhver rispa í þessu? Þetta skiptir máli þegar menn móta sér afstöðu til þess hvort verið sé að efla embættin eða ekki. Þetta er eitt af því fyrsta sem stofnanirnar á landsbyggðinni velta fyrir sér, hvort möguleiki verði á því að auka verkefni eða hvort einfaldlega sé verið að skera frá sér, eins og við orðum það svo oft í þinginu, þ.e. að þægilegra sé að skera niður og fækka stofnunum úti á landi frekar en að taka heildstætt á verkefninu.