144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Í fyrradag var efnt til viðburða víða um heim til þess að vekja athygli á þeim hörmulegu aðstæðum sem götubörn búa víða við. Enginn veit með vissu hversu mörg börn það eru en Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur áætlað að um það bil 100 milljónir barna séu heimilislausar og búi á götunni. Ég nefni þetta til að minna okkur öll á þær miklu skyldur sem við höfum, sem íbúar í alþjóðasamfélaginu, við öll þessi fátæku börn.

Ég ætla þó aðallega að gera hér að umtalsefni þau íslensku börn sem standa illa að vígi vegna bágs efnahags foreldranna. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bjuggu á árinu 2014 11,4% íslenskra barna á heimilum sem áttu erfitt með að ná endum saman, 10% þeirra bjuggu á heimilum undir lágtekjumörkum og 7,7% þeirra á heimilum sem skortir efnisleg gæði.

Það eru mjög mörg börn sem öll hafa sínar vonir um framtíðina og væntingar um að verða hitt og þetta þegar þau verða stór. En er Ísland land jafnra tækifæra fyrir börn? Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar var tæpur þriðjungur barna á Íslandi ekki í reglulegu tómstundastarfi árið 2014 en árið 2009 var það hlutfall 14,3%, þriðjungur barna. Það eru mjög mörg börn. Hversu mörg þeirra skyldu fara á mis við tómstundastarf sem margir félagar þeirra fá að njóta, vegna þess að það eru einfaldlega ekki til peningar á heimilinu þegar búið er að borga matar- og húsnæðisreikningana? Og hversu mörg þessara barna skyldu eiga foreldra sem þurfa að berjast fyrir því að laun þeirra nái 300 þús. kr. á mánuði?

Á hvaða leið erum við? Erum við að byggja hér upp samfélag þar sem virkilega er reynt að skapa börnunum jöfn tækifæri? Ég held að langflestir Íslendingar vilji að það sé og verði forgangsverkefni í stjórnmálum að byggja upp þannig samfélag. En svörum við stjórnmálamennirnir því kalli? Alls ekki nógu vel, finnst mér persónulega, og því miður held ég að mjög stór hluti landsmanna sé á sama máli.