145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

75. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þarf svo sem ekki að lengja umræðuna mikið, en vegna þess að til mín var beint ákveðnum spurningum þá tek ég undir með túlkun þeirra tveggja sem hér hafa talað, þ.e. frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Ég halla mér nú frekar upp að þekkingu þeirra hvað þetta varðar og tel að sú leið sem mælt er fyrir um í tillögunni sé farsæl. Sú útfærsla sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi er í fullu samræmi við það sem fram kom í máli formanns Vestnorræna ráðsins á fundum utanríkismálanefndar og eins í máli embættismanna, þ.e. þessi varfærna leið sérstaklega hvað varðar Grænland. Ég held að það sé alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að sú vegferð getur auðvitað tekið lengri tíma en við áætlum kannski núna, en hún er vel þess virði að hún sé samt reynd og farin og staðan sé greind.

Ég vil einnig taka undir með hv. þingmanni, sem fer nú að verða hálfgerður kyndilberi fríverslunarsamninga á þessum vettvangi, þ.e. hvað varðar mikilvægi þess að þjóð eins og Ísland fari þá leið. Ég segi líkt og hann að við eigum að vera óþreytandi í því að banka á þær dyr sem við teljum skipta máli fyrir Ísland í því sambandi og í því samhengi. Við erum nýkomin frá Japan, þó að það tengist ekki vestnorræna svæðinu, þar sem við fórum með þá tillögu þingsins héðan að við viljum fríverslunarsamning við það stóra land. Því var bara nokkuð vel og ágætlega tekið. Ég held því að þetta sé farsæl og góð leið fyrir Ísland.