149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð. Það er nokkuð ljóst að við erum neydd í samræmingu á regluverki frá Evrópusambandinu. Hér er á ferðinni stórmál sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir búfjárstofna okkar og þar með okkar hreina landbúnað og auk þess varðar málið lýðheilsu landsmanna.

Sérstaða okkar þegar kemur að íslenskum búfjárstofnum er ótvíræð. Þeir hafa verið einangraðir í okkar góða landi um aldir og hafa aldrei komist í snertingu við ýmis smitefni margra búfjárstofna sem eru landlægir í Evrópu og víðar. Rökin eru þannig svo sannarlega okkar megin. Það verður að segjast eins og er að það er náttúrlega dapurlegt að við séum komin í þessa stöðu. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld hafi ekki sýnt nægilega vel fram á það hversu sérstaða okkar er okkur mikilvæg.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi þessa aðgerðaáætlun sem hann hefur kynnt hér og er í 12 liðum. Það er ekkert fjallað í þessari aðgerðaáætlun um skaðabótaskyldu. Ef það myndi nú gerast, sem margir óttast, að eitthvað af þessum smitsjúkdómum sem hafa aldrei borist til landsins kæmu hingað til landsins. Við sem hér erum og þeir sem styðja þetta mál bera væntanlega ábyrgð á því.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hver kemur til með að bera skaðabótaskyldu gagnvart bændum (Forseti hringir.) ef það kemur upp að smitsjúkdómar sem hafa aldrei komið hingað berist til landsins ?