149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:10]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sitt sýnist hverjum um réttlætið. Það er svo sem ekki nýtt. Ég verð að segja að ég ætla líka að vera ósammála hv. þingmanni um að löggjafinn geti gert hvað sem honum sýnist varðandi aflahlutdeildina. Ég held að löggjafinn geti t.d. ekki ákveðið að innleysa allar aflaheimildir einstakra útgerða og selja á uppboði, ég held að stjórnarskráin muni ekki leyfa það. Hins vegar gæti löggjafinn ákveðið að veiðar skuli vera frjálsar. Þá er ekki tekið af neinum.

Ég ætla ekki að fara í eitthvert lögfræðilegt debatt um þetta. Ég er bara að segja að ég tel mikilvægt að það gildi sömu reglur um þetta eins og um aðrar veiðar. Veiðireynslan skiptir máli, hvatinn að menn reyni eitthvað nýtt, fari eitthvað og reyni að mynda sér einhver réttindi — ég lít svo á að þau réttindi séu, eins og önnur réttindi, varin af stjórnarskránni. Ég trúi því að dómstólar muni vera sammála mér í því.

Annað í lokin sem veldur mér líka svolitlum áhyggjum: Hv. þingmaður sagði að veiðigjöldin væru mjög lág. Mér finnst 33% af hagnaði plús skattur af öðrum hagnaði útgerðarinnar ekki lítil hlutdeild sem ríkið fær við þessar veiðar. Ég tel að skattlagning sé ívið of há í heildina og geti veikt samkeppnisstöðu okkar, sem þetta mál snýst meira og minna allt um.