144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í gær undirrituðu forstjóri Landsvirkjunar og LNS Saga samning um uppbyggingu stöðvarhúss og veitna við Þeistareyki. Ég held að það sé skref í framkvæmdaátt sem við eigum að fagna. Unnið hefur verið lengi að því. Það er ekki unnið í tíð þessarar ríkisstjórnar, það var unnið á síðasta kjörtímabili samhliða ákvörðun Alþingis um að veita ákveðnar ívilnanir til uppbyggingar á Bakka við Húsavík.

Á sama tíma og ég fagna því að þessir samningar séu í höfn og að hafist verði handa við þá og rekstur eigi að hefjast árið 2017, er ég þeirrar skoðunar að við eigum að breyta frá þeim ívilnunarsamningum sem við höfum verið að gera undanfarin ár og eru enn í farvatninu, og horfa til þess að skattumhverfi á Íslandi fyrir atvinnufyrirtækin í landinu verði með þeim hætti að þau kjósi að koma hér og vera hér. Að við búum tekjuskatt fyrirtækja með þeim hætti að hann fari niður í 15% eða 10% og við höfum skattumhverfið þannig að það sé hægt.

Það hefur sýnt sig að framkvæmdastig í landinu er hærra og meira eftir því sem skattur á fyrirtæki er lægri. (SII: Bull.) Það fer saman, alveg sama þó að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kalli hér fram í „bull“. (GuðbH: Þetta er rangt.) Það er staðreynd sem hagkvæmnin hefur sýnt í gegnum tíðina og ég skora á núverandi ríkisstjórn og þingheim allan að hafa það í huga í náinni framtíð til að auka framkvæmdastig í landinu.

Ég vil jafnframt taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, það er kominn tími til að setja meiri fjármuni í samgönguáætlun og þá í hina hefðbundnu vegagerð og hlúa að þeim vegum sem eru í landinu. Við verðum (Forseti hringir.) þess vegna að setja stopp um stundarsakir (Forseti hringir.) í gangagerð.