144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[15:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir þessa umræðu þó að ég segi um leið að það væri virkilega þörf á að ræða málefni Póstsins almennt eða bara skilgreina hvað er grunnþjónusta árið 2015 og ef til vill skrifa ný lög um Íslandspóst núna. Ég þakka fyrir þessa umræðu en tel að hún þyrfti að vera lengri en í sérstakri umræðu. Hún er miklu stærra mál.

Eins og ég sagði: Hvað er grunnþjónusta? Það þarf að fara í gegnum það. Ef við förum í sögu Póstsins er hún ansi merkileg. Það var árið 1776 sem nafni minn, Kristján konungur VII., gaf út tilskipun um póstferðir hér á landi. Tveimur árum seinna hófust skipulegar póstsendingar milli Danmerkur og Íslands — ein ferð á ári. Það var svoleiðis. Síðan kom sérstök stjórn um pósthúsin, pósthús opnað 1873 o.s.frv. Við þekkjum Póst og síma frá 1935 og síðan þekkjum við að Pósti og síma var skipt upp 1998. Pósturinn er í dag að mínu mati fyrirmyndarfyrirtæki sem stendur sig mjög vel þó að það hafi þurft að draga úr þjónustu í dreifðum byggðum landsins varðandi daglegan útburð. Fyrirtækið hefur að mínu mati brugðist við því með upptöku hálfgerðra landpósta aftur. Við vitum hvernig þeir voru í gamla daga. Ég segi fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, af því að deilurnar standa stundum um einkaréttinn á þessum 50 gr bréfum og léttari, sem fer sífækkandi og eru bara hverfandi, að það mun auðvitað koma upp eins og Síminn hefur brugðist við með því að taka upp frekari rafræn samskipti sem ég held að hafi frestast meðal annars út af hruninu og miklum breytingum.

Ég fagna þessari umræðu en vil segja það (Forseti hringir.) að úti um allt land um klukkan fimm í dag fara ótal bílar með böggla og póst frá Póstinum og það má nokkurn veginn treysta því, í 99% tilvika, að sendingarnar séu komnar til viðtakanda í fyrramálið. Það finnst mér fyrirmyndarþjónusta og Póstinum til mikils sóma.