135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:03]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar setjum markið hátt þegar heilbrigðisþjónustan er annars vegar, við viljum geta gengið að góðri þjónustu vísri þegar þörf krefur. Það er jafnframt samstaða meðal allra stjórnmálaflokka að heilbrigðisþjónustan eigi að mestu að vera greidd af opinberu fé.

Í nýrri skýrslu OECD um Ísland er sérstaklega fjallað um hvernig auka megi hagkvæmni í rekstri íslenska heilbrigðiskerfisins. Þess ber fyrst að geta að OECD gefur árangri og gæðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu mjög góða einkunn og í skýrslunni segir jafnframt að heilbrigðisástand þjóðarinnar sé öfundsvert. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Allir helstu mælikvarðar á gæðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru okkur í hag þó að vissulega séu ákveðnir þekktir vankantar.

Árangur íslenskrar heilbrigðisþjónustu ber annars vegar að þakka menntunarstigi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna sem er með því hæsta sem gerist og hins vegar forgangsröðun stjórnvalda og áherslum á að heilbrigðisþjónustan sé í fremstu röð. Við segjum stundum að íslensk heilbrigðisþjónusta sé sú besta í heiminum. Við erum nokkuð nálægt því en þó ekki á toppnum. Í skýrslu sinni frá árinu 2000 um mat á árangri heilbrigðiskerfa í löndum heims setur Alþjóðheilbrigðismálastofnunin okkur í 15. sæti meðal 190 þjóða. Þessi árangur er í raun mjög góður. Þar var Íslandi raðað litlu ofar en Bretlandi en þar hefur reyndar heilbrigðisþjónustan legið undir ámæli á síðustu árum af ýmsum sökum. Heilbrigðisþjónusta í Noregi var í 11. sæti en önnur Norðurlönd á bilinu 23.–34. sæti. Við getum vel við unað en við höfum tækifæri og efni til að gera betur.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að framlag til heilbrigðismála segir ekki alla söguna um gæði og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Bandaríkin og Kúba eru einna skýrasta dæmið um það. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin metur stöðu heilbrigðiskerfa þessara þjóða á svipuðu róli eða í kringum 40. sæti en gríðarlegur munur er á kostnaði við heilbrigðiskerfi milli landanna tveggja. Kúba ver til að mynda rúmum 6% af landsframleiðslu eða 220 dollurum á mann en Bandaríkin verja um 25% af landsframleiðslu sinni og um 6 þúsund dollurum á mann á ári til heilbrigðisþjónustu. Þarna er ólíku saman að jafna í kostnaði en árangur svipaður að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Í ljósi þess að Ísland er í 3. sæti meðal þjóða hvað varðar opinber framlög til heilbrigðisþjónustunnar og á sama tíma ein yngsta þjóðin meðal vestrænna ríkja er ljóst að við eigum að geta gert enn betur. Við eigum að geta nýtt fjármagn sem við setjum til heilbrigðismála betur en við gerum í dag án þess þó að vega að gæðum þjónustunnar og grundvallarhugmyndum um jafnræði þegnanna varðandi aðgengi, gæði og kostnað. Um það fjallar skýrsla OECD um heilbrigðismál sem hér er til umræðu.

OECD bendir á að við greiðum heilbrigðisþjónustuna háu verði og að óbreyttu stefni kostnaðurinn í 15% af landsframleiðslu á næstu áratugum en er núna í rúmlega 9%. Kostnaður við heilbrigðisþjónustu hér á landi er 40% hærri en meðaltal OECD en landsframleiðsla er 25% yfir meðaltali OECD. OECD hvetur okkur til að auka skilvirkni og hagkvæmni í kerfinu og bendir m.a. á aukið samstarf við einkaaðila um rekstur þjónustunnar og að auka samkeppni, breyta fjármögnun, auka greiðsluþátttöku sjúklinga, m.a. á sjúkrahúsum, án þess þó að fórna jöfnum rétti allra til þjónustu.

Stjórnarandstaðan mun örugglega spyrja í umræðunni hér í dag hvort það sé nokkur ástæða til að breyta skipulagi þjónustunnar fyrst við erum tiltölulega ánægð með hana. Það er röng nálgun og byggir á afturhaldssemi. Heilbrigðisþjónusta sem ekki er í stöðugri þróun staðnar. Við eigum að keppast við að gera góða heilbrigðisþjónustu enn betri og við eigum að stuðla að betri nýtingu fjármuna til hennar með nauðsynlegum skipulagsbreytingum. Þar eigum við m.a. að taka mið af íslenskum rannsóknum og samanburði við aðrar þjóðir eins og gert er í OECD-skýrslunni til þess að sníða af þá vankanta sem við þekkjum.

OECD bendir m.a. á að hjúkrunarrými fyrir aldraða eru of mörg og heimaþjónusta við þann aldurshóp vanþróuð. Í skýrslunni er jafnframt bent á að svigrúm er til hagræðingar í sjúkrahússrekstri. Við vitum hvar skórinn kreppir og heilbrigðisstarfsfólk er reiðubúið að taka þátt í þeim breytingum sem gera þarf. Á sama tíma og tækni og þekkingu í heilbrigðisþjónustu hefur fleygt fram á síðustu áratugum hefur skipulag hennar tekið litlum breytingum. Við erum með mjög miðstýrt heilbrigðiskerfi. Það byggir á þungu stjórnkerfi sem er að mestu ríkisrekið. Reyndar bendir OECD á það í samanburði við aðrar vestrænar þjóðir að íslensk heilbrigðisþjónusta er óvenjulega miðstýrð og enn hafi verið hert á miðstýringu með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á síðustu árum. Með þessu skipulagi veitum við ekki heilbrigðisstarfsfólki nægilegt svigrúm til sjálfræðis til að nýta þekkingu sína og reynslu í þágu sjúklinganna. Á það benda m.a. mannauðsrannsóknir sem sýna að starfsánægja meðal ríkisstarfsmanna er einna minnst á heilbrigðisstofnunum.

Af þessum ástæðum varpa ég fram spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvernig hyggst hann bregðast við ábendingum OECD varðandi íslenska heilbrigðisþjónustu? Hvaða áhrif hafa þær á áform ríkisstjórnarinnar um kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustu sem lýst er í stjórnarsáttmálanum?