135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:08]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Rétt er að í skýrslu OECD kemur fram þegar íslensk heilbrigðisþjónusta er skoðuð í alþjóðlegum samanburði OECD að hún færir landsmönnum afburða árangur á mörgum sviðum. Ísland kemur mjög vel út miðað við alla mælikvarða sem notaðir eru til að mæla heilbrigðisþjónustu. Þessi frábæri árangur kostar vissulega sitt svo sem sjá má þegar við skoðum opinber útgjöld til heilbrigðisþjónustu á mann. Miðað við árið 2005 erum við Íslendingar þar í 4. sæti meðal OECD-ríkja. Þegar litið er til heildarútgjalda í heilbrigðisþjónustu erum við í 6. sæti.

Hér erum við reyndar komin að hinni hlið málsins og hún er þessi: Á sama tíma og við erum í 4. sæti hvað varðar opinber útgjöld til heilbrigðismála á mann, í 4. sæti fyrir árlegan vöxt heilbrigðisútgjalda á mann og í 4. sæti hvað varðar fjölda langlegurýma á hverja þúsund íbúa sem náð hafa 65 ára aldri, erum við á meðal yngstu þjóða innan OECD. Í þessu felst vissulega áskorun til okkar sem förum með yfirstjórn heilbrigðismála í landinu. Með hliðsjón af frábærum árangri og miklum gæðum heilbrigðisþjónustunnar en ungum aldri þjóðarinnar hljótum við að spyrja okkur: Hvernig eigum við að tryggja og viðhalda þeim gæðum heilbrigðisþjónustunnar sem við fáum notið í dag þannig að kynslóðir framtíðarinnar fái notið þess sama?

Hv. 7. þm. Reykv. s. spyr: Hvernig hyggst heilbrigðisráðherra bregðast við ábendingum OECD? Hvaða áhrif hafa þær á áform ríkisstjórnarinnar um kerfisbreytingar á heilbrigðisþjónustu sem lýst er í stjórnarsáttmálanum?

Eins og flestum hér er eflaust kunnugt var mörkuð afar skýr stefna í heilbrigðismálum við myndun núverandi ríkisstjórnar. Þar kemur m.a. fram að veita skuli heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Þá á að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapa á aukið svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustunni, m.a. með útboðum og þjónustusamningum en jafnframt að tryggja aðgang allra óháð efnahag.

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að þessi stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar var samþykkt í maí 2007. Skýrsla OECD kemur út í lok febrúar sl. Ekki er annað að sjá en að í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eins og hún var ákveðin fyrir um ári síðan megi finna viðbrögð ríkisstjórnarinnar við flestum ábendingum OECD þó að þær hefðu reyndar komið síðar. Svar mitt við spurningu hv. þingmanns er í stuttu máli þetta:

Skýrsla OECD styður mjög vel við áform ríkisstjórnarinnar um kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni. Í lok skýrslu OECD eru settar fram átta beinar ábendingar til íslenskra stjórnvalda í þessum efnum. Tvær þessara ábendinga lúta að styrkingu ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að styrkja samningagerð ríkisins, stjórnun samninga og eftirfylgni annars vegar og að koma á kostnaðargreiningu heilbrigðisþjónustunnar og blandaðri og afkastatengdri fjármögnun hins vegar. Að þessu er nú unnið innan heilbrigðisráðuneytisins og mun frumvarp til laga þar um verða lagt fyrir þingið á allra næstu dögum.

Ein ábending lýtur að því að skapa svigrúm fyrir meiri fjölbreytni í rekstri. Markvissari samningagerð og styrking á hlutverki ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustunnar mun vissulega gera ríkið betur í stakk búið til að opna fyrir meiri fjölbreytileika í rekstri heilbrigðisþjónustunnar, þó þannig að þarfir og hagsmunir notenda og skattgreiðenda séu þar ávallt tryggðir.

Önnur ábending snýr að greiðsluþátttöku notenda þar sem hvatt er til endurskoðunar og jafnvel aukinnar greiðsluþátttöku notenda fyrir þjónustuna en þó þannig að tekið sé tillit til áhrifa greiðsluþátttöku notenda á jöfnun. Eins og þingmenn vita er starfandi nefnd undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals þar sem þessi mál eru nú í heildstæðri skoðun.

OECD hvetur til þess að dregið verði úr notkun sjúkrahúsa og hjúkrunarrýma en að þjónusta í heimahúsum verði efld þess í stað. Stjórnmálamenn og fagaðilar hafa um áratuga skeið rætt um að sameina þessa tvo þjónustuþætti á eina hendi en samhæfing og þjónusta milli þessara kerfa er nú bæði kostnaðarsöm og tímafrek. Að svo miklu leyti sem þessi þáttur þjónustunnar er á forræði heilbrigðisráðuneytisins vil ég vekja athygli á því að ég hef lagt mig fram um að efla samstarf á milli hinnar svokölluðu heimaþjónustu sveitarfélaganna og heimahjúkrun. Heilbrigðisráðuneytið og velferðarráð Reykjavíkurborgar hafa frá því í haust, með hléi reyndar, unnið að útfærslu leiða til að efla heimahjúkrun og heimaþjónustu í Reykjavík og unnið er að þessu með fleiri sveitarfélögum á landinu.

Í skýrslu OECD er hvatt til þess að leitað verði leiða til að lækka lyfjaverð með því að auka samkeppni og notkun samheitalyfja og gera breytingar á greiðsluþátttöku. Eins og flestum ætti að vera kunnugt var það eitt mitt fyrsta verk sem ráðherra að leita leiða til að auka frelsi og samkeppni á lyfjamarkaði. Nefnd sú sem ég vísaði í áðan og hefur greiðsluþátttöku notenda til endurskoðunar hefur sett lyfjamál í forgang og má búast við tillögum hennar í næstu viku. Þá var samþykkt tillaga mín á fundi norrænna heilbrigðisráðherra sl. haust um að vinna að því að koma á sameiginlegum lyfjamarkaði á Norðurlöndum þar sem því verður við komið. Markmiðið er m.a. að freista þess að efla samkeppni á lyfjamarkaði með því að auka viðskipti með lyf á milli landa.

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað stórt verkefni sem fram undan er og heildarárangur af þessum aðgerðum skilar sér aftur á móti til lengri tíma, ekki einungis til skemmri. (Forseti hringir.) Hér gildir að hafa staðfasta framtíðarsýn og þrek til framkvæmda.