144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

málefni Íslandspósts.

[15:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Kveikjan að því að ég bað um þessa umræðu við hæstv. innanríkisráðherra var umfjöllun fyrir um mánuði um brot Íslandspósts á samkeppnislögum. Staða Íslandspósts á samkeppnismarkaði hefur verið rannsóknarefni Samkeppniseftirlitsins um langt árabil og liggja fyrir ansi, eða mjög skulum við segja, margar kvartanir á framferði Íslandspósts á samkeppnismarkaði. Mig langaði í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að aðgreina þurfi betur í rekstri Íslandspósts samkeppnisrekstur fyrirtækisins og tryggja að hann sé í samræmi við samkeppnislög og allt heilbrigt samkeppnisumhverfi og hins vegar þann rekstur fyrirtækisins sem er á grunni einkaleyfis og skyldu fyrirtækisins um alþjónustu.

Svo langar mig líka að spyrja ráðherrann út í eitt álitamál þessu tengt. Því er haldið fram í umkvörtunum til Samkeppniseftirlitsins að Íslandspóstur noti tekjur af einokunarstöðu sinni eða einkaleyfisþætti rekstrarins til að niðurgreiða samkeppnisreksturinn. Því neita forsvarsmenn Íslandspósts og í nýlegu viðtali sagði forstjóri Íslandspósts að því væri þveröfugt farið og samkeppnisreksturinn skilaði í raun hagnaði en einkaleyfisþátturinn ekki. Hins vegar er sú fullyrðing ekki studd í rekstraryfirliti í ársreikningi, það er ekki sundurgreint í ársreikningi hvaða þættir fyrirtækisins skila tekjum og Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert athugasemdir. Það virðist því enn þá vera álitamál, og þá mjög alvarlegt álitamál, hvort Íslandspóstur noti einkaleyfisþátt rekstrar síns til að niðurgreiða samkeppnisrekstur.

Ég vil athuga hvort hæstv. ráðherra getur varpað einhverju ljósi á þetta. Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að innleiða á Íslandi tilskipun Evrópusambandsins um frjálsa póstflutninga en hún gekk í gildi fyrir allnokkru og mundi fela í sér afnám einkaleyfis á bréfum undir 50 gr. Svo langar mig einfaldlega að eiga smáorðastað við ráðherrann um þessa umgjörð alla saman. Við erum með Íslandspóst í opinberri eigu, eiginlega aðallega vegna þess að við erum með lög um póstflutninga, lög um póstþjónustu í landinu þar sem ákveðin póstþjónusta, bréfasendingar eru skilgreindar sem, að mér sýnist, grunnþjónusta sem þurfi að sinna. Það er til dæmis lögbundið að bera eigi út bréf í landinu hvern einasta virkan dag allan ársins hring. Það er lögbundið þarna að fólk eigi heimtingu á því að fá senda til sín til að mynda vörulista og alls konar hluti. Allur lagabálkurinn ber þess einhvern veginn vitni að vera skrifaður í veröld þar sem eru engir tölvupóstar. Við sinnum samskiptum núna með rafrænum hætti. Við eigum samskipti á Facebook, með tölvupósti og með öllum þeim leiðum, þar eru rafrænar undirskriftir. Það má því má halda því fram að þetta sé orðið fremur úrelt og ef það er ekki úrelt núna verður eftir fimm ár mjög úrelt að vera með heilan lagabálk þar sem gengið er út frá því að það séu grunnmannréttindi að fá til sín sent bréf skrifað með bleki. Það er hægt að sinna þeim grunnþáttum allt öðruvísi þannig að ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi að endurskoða löggjöfina og hvort ekki þurfi að endurskoða af hverju við þurfum að vera með fyrirtæki í opinberri eigu til að sinna þessu þegar við höfum internetið.

Bréfasendingar hafa minnkað um 51% frá aldamótum og svo ég tali út frá eigin dæmi eru 90% af því ruslpóstur. (Forseti hringir.) Þetta virðist vera orðið mjög úrelt og þurfa endurskoðunar við.