139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:48]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hér skuli vera til umræðu eitt af fjölmörgum sértækum úrræðum gegn þeim vanda sem gengur daglega undir nafninu „skuldavandi heimilanna“. Ég vil líka sérstaklega þakka þeim einum, tveimur, þremur, fjórum hv. þingmönnum sem auk forseta og velferðarmálaráðherra telja ástæðu til að sitja undir þessari umræðu. Hinir 59 sitja sennilega á skrifstofum sínum límdir við sjónvarpstækin og fylgjast spenntir með.

Þar er til máls að taka varðandi skuldavanda heimilanna að hér á landi varð svokallað hrun. Því má líkja við skipsstrand í mjög miklum stormi. Þær björgunaraðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til er að setja fram nokkra björgunarbáta í stað þess að ráðast í einhverjar stórar aðgerðir gagnvart skipinu og fela þessum bátum það verkefni að hirða upp það fólk sem við strandið hraut útbyrðis og berst nú um í brimgarðinum. Þessir björgunarbátar sigla nú um brimgarðinn og bjóðast til að fiska upp fólk eftir að hafa rétt því blað og blýant og beðið það um að fylla út ákveðin umsóknareyðublöð þar sem það velkist um í sjónum. Þetta er sjálfsagt mannúðleg aðgerð en mér finnst hún ekki mjög skynsamleg, hún er ekki mjög heildstæð og hún tekur ekki á því voðalega slysi sem hér varð.

Hér þarf fleira að koma til. Það þarf að reyna að koma skipinu af skerinu, það þarf að þétta það og það þarf að hlúa að þeim sem eru um borð í skipinu, bæði áhöfn og farþegum. Með öðrum orðum þá er upphaf og endir allra þessara björgunaraðgerða svokallaðar almennar aðgerðir. Hinar sértæku aðgerðir beinast að þeim sem verst hafa orðið úti, sem hafa lent í sjónum, sem berjast um í brimgarðinum upp á líf og dauða og að sjálfsögðu þarf að bjarga þeim. En þeir eru ekki þeir einu sem lentu í strandinu heldur allir sem voru um borð í skipinu, einnig útgerðarmenn þess, tryggingafélagið sem tryggði það, atvinnulífið. Þetta tjón er heildstætt, það nær yfir heilt land og heila þjóð. Það er ekki hægt að bregðast við þessu með sértækum aðgerðum. Fyrst þurfa að koma til almennar aðgerðir og síðan hinar sértæku.

Hinn ágæti þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði hér áðan að fyrir almennum aðgerðum væru svokölluð réttlætisrök sem mörg sjónarmið væru um og býsna umdeilanleg, ef ég hef skilið það rétt. Það er alrangt. Það er bara mjög grunnur skilningur á þeim vanda sem hér er til staðar. Það er ekki réttlætissjónarmið, það hníga öll rök að því að reyna að leysa allan vanda heildstætt, kannski fyrst og fremst þann risavanda sem nú steðjar að þjóðinni okkar. Hafi fólk haft þá hugmynd að þessi vandi sé þess eðlis að hægt sé að leysa hann með litlum sértækum aðgerðum og stoppa í ýmis göt þá veit ég ekki hvað það fólk hefur verið að hugsa þegar mótmælaaðgerðirnar áttu sér stað á Austurvelli við þingsetningu og daginn eftir.

Þar var þjóð í vanda að tjá sig. Á mótmælunum var ekki uppi ein krafa. Þar tókust á ýmis sjónarmið, sem sýnir mér a.m.k. að þarna var fólk úr öllum kimum þjóðfélagsins. Sameiginlega var þessi hópur ráðvilltur og heillum horfinn, langeygur og búinn að missa þolinmæðina eftir því að bíða eftir leiðsögn úr ráðuneytunum og héðan úr Alþingishúsinu. Héðan verður þessi leiðsögn að koma.

Svo ég víki að hinum sértæku aðgerðum, svo ágætar sem þær eru þegar þær eiga við, þá hefur það vakið almenna athygli hversu fáir hafa nýtt sér þau úrræði sem við erum nú að reyna að bæta og ég fagna því vissulega. Það á sér mjög einfalda skýringu. Það halda allir að sér höndunum þar til línan með heildstæða lausn hefur verið lögð. Það ætlar enginn að gefast upp og fara í eitthvert sérstakt úrræði fyrir sjálfan sig og fjölskyldu sína nema öll von sé úti vegna þess að fólk bíður eftir því að lögð verði lína um almennar aðgerðir af einhverju tagi.

Það er kominn tími á þessar almennu aðgerðir. Frá því að ég kom inn á það þing sem nú situr hef ég talað fyrir daufum eyrum ríkisstjórnarinnar um þörfina á þessum almennu aðgerðum. Mér hefur verið svarað því til að það sé lúxus sem við höfum ekki efni á. Félagsmálaráðherra sem þá var — ég veit ekki hvar hann er núna, er hann ekki hæstv. viðskiptaráðherra? — Árni Páll Árnason hefur hvað eftir annað staðið hér brosandi og sagt: Ef einhver getur sagt mér hvernig í dauðanum við eigum að gera þetta er alveg sjálfsagt að ræða þetta.

Það vantar ekki að það hafi verið útskýrt fyrir ríkisstjórninni hvernig hægt er að fara fjölmargar leiðir. Það er ekki bara um eina leið að ræða til að koma til móts við hinn almenna skuldavanda, það er um margar leiðir að ræða. Eina af þessum leiðum ákvað hv. þm. Pétur Blöndal að hafa að fíflskaparmálum hér áðan og benda á að hún væri ómöguleg. Ef farið væri í almenna skuldaniðurfellingu væri hætta á því að Jón Jónsson sem skuldaði 10 milljónir fengi 2 milljónir niðurfelldar meðan Jónas Jónasson væntanlega sem skuldaði 100 milljónir fengi 20 milljóna niðurfellingu og það væri ekkert réttlæti í því.

Auðvitað er réttlæti í því. Við skulum gá að því að það gæti kannski leitt til þess að hinn ágæti stóreignamaður Jónas gæti borgað þessar 80 milljónir og litli Jón gæti borgað sínar 8 milljónir og eru þá ekki allir lukkulegir með það?

Það hefur enginn sagt að það þurfi að fella niður allar skuldir almennings. Því hefur verið haldið fram og ég mun halda áfram að halda því fram þar til mig þrýtur örendið að hér varð almennur forsendubrestur. Tjóninu af því þarf að deila milli lánveitenda og lántaka, svo einfalt er það, það er ekki flóknara en það. Úrræðin eru fjöldamörg. Það er flöt niðurfelling, eitt úrræðið sem nefnt hefur verið er að höfuðstóll allra lána, gengistryggðra lána og verðtryggðra lána, verði fluttur til þess sem hann var 1. janúar 2008. Þessi dagsetning er valin með tilliti til þess að af skattskýrslum fyrir árið 2007 er greinilega hægt að sjá hver höfuðstóllinn var. Síðan verði bara reiknaðir venjulegir vextir af láninu og verðbætur með einhverju þaki, nefnd hafa verið 4%, sem lengi var verðbólguviðmið Seðlabankans sem hefur marga dýfuna tekið og ekki gengið neitt sérlega vel að ná þeim stöðugleika í ríkisfjármálum sem vonast hefur verið eftir.

Þetta er ein leið. Það er sagt að hún kosti 220 milljarða. Gott og vel. Hvern kostar hún 220 milljarða? Það eru margir aðilar sem koma að þessu máli. Það eru lántakendur, það eru lífeyrissjóðir, það eru fjármálastofnanir. Þessari upphæð þarf að dreifa niður á þessa aðila og að sjálfsögðu er það svo í þjóðfélagi okkar að til lengri tíma litið koma peningar frá þeim sem eiga peninga, það er ekkert flóknara en það. Það koma engir peningar frá þeim sem enga peninga eiga eða þeim sem eiga fullt af peningum en fela þá.

Auðvitað er þetta áfall sem öll þjóðin tekur á sig. Við erum bara að tala um að það er ekki réttlátt ef hér verður hrun að aðeins hluti þjóðarinnar, fólk sem tók lán á forsendum sem gjörbreyttust vegna þess að hér í landi er sú húsnæðisstefna að hver einasti einstaklingur er skyldugur til að eiga sitt húsnæði, að fólk sem var bara að bjarga þaki yfir höfuðið sé dæmt í þá refsingu að borga óréttláta vexti eða verðtryggingu af láni sem hefur orðið fyrir algjörum forsendubresti í hruninu. Það er ekkert réttlæti. Þetta má kalla réttlætisrök, sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir vitnaði til. Fyrir mér eru þessi réttlætisrök ekkert minna virði en svonefnd efnahagsleg rök, þjóðhagsleg rök. Réttlæti skiptir mig ekki minna máli en peningar.

Ef við komum að fleiri leiðum til að komast fram úr skuldamálum heimilanna hefur til að mynda Þórólfur Matthíasson prófessor og fleiri talað fyrir svonefndri LÍN-leið sem gæti átt við í vissum tilvikum. LÍN-leiðin felst, ef ég skil hana rétt, í stuttu máli sagt í því að afborganir af skuldum séu ekki tengdar við verðmæti eignarinnar heldur við greiðslugetu skuldarans. Það er gert við námslán. Þeir sem fara til náms greiða síðan niður námslánin í hlutfalli við tekjur sínar. Þeir sem lenda í hálaunastörfum greiða námslán sín fljótt niður, þeir sem lenda í láglaunastörfum, umönnunarstörfum eða kennslu eða einhverjum hræðilega mislukkuðum störfum efnahagslega en hamingjusömum greiða lán sín á lengri tíma. Þetta er ein aðferð sem þarf að hafa í huga við að ráða fram úr skuldavanda heimilanna.

Ég ítreka það að ég fagna því að það skuli vera reynt að lappa upp á þessi sértæku úrræði sem eru einu úrræðin sem ríkisstjórnin hefur getað kreist úr sér til þessa, ég er bara feginn því, það er hið besta mál. En við skulum ekki láta þar við sitja. Við skulum drífa í því sem þjóðin bíður eftir, sem þjóðin fer fram á, að með illu eða góðu verði reynt að koma til móts við skuldavanda heimilanna með almennum aðgerðum.