144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

loftslagsmál.

[15:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það hefur áður komið fram í máli hæstv. ráðherra að hann telji að rannsóknir á súrnun sjávar þurfi að efla verulega hér á landi. Mig langar því til að nota tækifærið til þess að biðja hæstv. ráðherra um að gera þinginu grein fyrir því með hvaða hætti hann sjái meira afli beitt í þágu þessara rannsókna. Það er gríðarlega mikilvægt að við sinnum þessum rannsóknum og gríðarlega miklir hagsmunir þar undir.

Hæstv. ráðherra talar um bindingu eða möguleika á kolefnisbindingu hér á landi í þágu loftslagsmarkmiðanna. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað sér hann fyrir sér að við getum tekið stærstu skref að því er varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda? Þá er ég ekki að tala um möguleika á bindingu heldur það sem skorar í raun inn í ábyrgt loftslagsbókhald, sem er samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda.

Svo vil ég biðja hann um að árétta þann skilning minn að (Forseti hringir.) hann telji að við þurfum ekki að staldra við áform Íslands að því er varðar olíuvinnslu. Telur hann ekki að við þurfum að setja spurningarmerki við það þrátt fyrir að alþjóðlegar stofnanir líti svo á, margar hverjar, að nóg sé að komið (Forseti hringir.) með jarðefnaeldsneyti og vinnslu þess?