143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

upplýsingar til almennings um skuldaniðurfærslu.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki að hugsa um hv. þm. Helga Hjörvar, ég er að hugsa um allt það fólk sem hv. þingmaður einbeitir sér að því að blekkja og gera óöruggt og hvernig hann skapar almenn leiðindi þegar við höfum einmitt ástæðu til að gleðjast. Við erum hér í dag að fara að ræða tillögur sem marka tímamót í því að takast á við vanda heimilanna og hafa raunar vakið athygli í löndum víða í kringum okkur vegna þess hversu langt er gengið, vegna þess hversu stór liður þetta er í því að leysa þann efnahagsvanda sem Ísland hefur verið í undanfarin ár. Við vildum að sjálfsögðu vera komin enn lengra í því en það sem hér er til umræðu í dag er gríðarlega stór liður í því að koma íslensku efnahagslífi og íslensku samfélagi (HHj: Hvar er reiknivélin?) aftur á réttan kjöl.

Hv. þingmaður ætti að leyfa sér að gleðjast yfir því í stað þess að einbeita sér alla daga að því að velta fyrir sér hvernig hann geti mögulega gert sem flesta óánægða eða óörugga. (BirgJ: Hvar er reiknivélin?) (Gripið fram í: … met?)